• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Sameiginleg áskorun landshlutasamtakanna um ljósleiðaravæðingu Íslands

Ísland ljósvætt – mikilvægasta hagsmunamál landsbyggðanna

Landshlutasamtökin skora á þingheim og yfirvöld að tryggja aukna fjármuni til verkefnisins „Ísland ljóstengt“. Það er ekki bara sanngirnismál að allir íbúar landsins, hvort sem þeir búa í þéttbýli eða dreifbýli, eigi kost á ljósleiðaratengingu sem stenst nútímakröfur heldur er það beinlínis forsenda uppbyggingar atvinnulífs og byggðar.

Í skýrslu starfshóps um alþjónustu í fjarskiptum og útbreiðslu háhraða nettenginga á Íslandi eru háleit markmið sem landshlutasamtökin hafa fagnað en nokkuð hefur skort á að fjármagn væri í samræmi við markmiðin. Sömuleiðis kom það nokkuð á óvart við úthlutun Fjarskiptasjóðs árið 2016 að byggðasjónarmið skyldu ekki vera höfð að leiðarljósi.

Það er einróma álit landshlutasamtakanna að við framtíðarúthlutanir verði að vera svigrúm fyrir sértækar aðgerðir þar sem horft er til tenginga þeirra svæða þar sem erfiðar aðstæður og/eða lágar tekjur sveitarfélaganna koma í veg fyrir þátttöku í uppboði á samkeppnisforsendum. Þessu hafa landshlutasamtökin komið á framfæri við Fjarskiptasjóð, starfshóp um alþjónustu í fjarskiptum og útbreiðslu háhraða nettenginga á Íslandi og innanríkisráðuneytið.

Nú er til umræðu á Alþingi fjármálaáætlun fyrir útgjöld ríkisins til næstu fimm ára. Því gefst einstakt tækifæri til að festa í framtíðaráætlunum hins opinbera fjárframlag sem dugar til að markmið um ljósleiðaravæðingu landsins á næstu fjórum árum nái fram að ganga, um einn milljarð króna. Til þess þarf áræði sem landshlutasamtökin eru reiðubúin að styðja með ráðum og dáð. Sömuleiðis eru þau, hér eftir sem áður, tilbúin til viðræðna um þetta mikilvægasta hagsmunamál landsbyggðanna.

Virðingarfyllst,

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæði

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi

Fjórðungssamband Vestfirðinga

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

Eyþing

Samband sveitarfélaga á Austurlandi

Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum

 

Uppbygging þekkingarsamfélags á Austurlandi

Á afmælismálþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) sem haldið var fimmtudaginn 31. mars 2016 í Egilsbúð í Neskaupstað um uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi var tilkynnt um stofnun starfshóps sem á að skilgreina þrjú verkefni á þessu sviði sem ráðist verður í á næstu fimm árum. Þá var undirrituð viljayfirlýsing um myndun fagráðs starfshópinum til stuðnings.

Aðalfyrirlesari á málþinginu var Frank Rennie, prófessor sjálfbærri þróun í dreifbýli við University of Highlands and Islands í Skotlandi. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að námi á netinu og kostum nettenginga fyrir sjálfbæra uppbyggingu á landsbyggðinni. Auk hans fluttu erindi Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Sæunn Stefánsdóttir, forstöðukona Stofnunar rannsóknarsetra Háskóla Íslands, Kristín Ágústsdóttir, forstöðukona Náttúrustofu Austurlands, Guðrún Áslaug Jónsdóttir, yfirverkefnastjóri háskólanáms og rannsókna hjá Austurbrú, Elísabet Erlendsdóttir, formaður Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík og Þórarinn Sólmundarson, skrifstofustjóri við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þá var boðið upp á málstofu um svæðisskipulag þar sem Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu flutti fyrirlestur. Í lok fundarins var tilkynnt um stofnun starfshóps sem hefur það verkefni að skilgreina þrjú verkefni á þessu sviði sem ráðist verði í innan fimm ára. Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, University of Highlands and Islands, Háskólans á Akureyri, Háskóli Íslands, Náttúrustofu Austurlands og Austurbrúar undirrituðu viljayfirlýsingu um að mynda fagráð til stuðnings starfshópinum.

Íbúum hefur því miður fækkað heldur á Austurlandi á liðnum árum. Ein skýring á þessari neikvæðu þróun er skortur á sérhæfðum störfum fyrir háskólamenntaða einstaklinga. Sömuleiðis hefur framboð á fjarnámi á háskólastigi verið af mjög skornum skammti og einsleitt. Þá hallar verulega á Austurland þegar kemur að háskóla- og rannsóknastarfsemi á vegum ríkisins.

Málþingið, sem var öllum opið, var haldið í tilefni þess að á þessu ári eru 50 ár liðin frá stofnun landshlutasamtakanna. Stofnfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi var haldinn í Egilsbúð dagana 8. – 9. október 1968. Þar var samþykkt að stofna til samtaka austfirskra sveitarfélaga en alls sóttu fundinn 28 fulltrúar frá 15 sveitarfélögum. Þá voru einnig samþykkt lög fyrir SSA þar sem fram kemur að markmið sambandsins skuli vera að vinna að hagsmunum sveitarfélaganna, einkum í atvinnu-, efnahags-, mennta-, skipulags-, samgöngu- og félagsmálum. Í dag eiga öll átta sveitarfélögin á starfssvæði SSA, frá Djúpavogi í suðri til Vopnafjarðar í norðri, aðild að landshlutasamtökunum. Verkefnum SSA hefur fjölgað á undanförnum árum, ekki síst með tilkomu samnings um sóknaráætlun.

 

Afmælismálþing SSA - uppbygging þekkingarsamfélags á Austurlandi

SSA augl Thekkingarsamf

 

Opinn íbúafundur 15. mars nk.

Auglýsing endurskoðun

 
Síða 5 af 11
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is