• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

55,5 milljónir til 90 verkefna

sl austurland-01Úthlutað var 55,9 milljónum króna úr Uppbyggingarsjóði Austurlands í dag til 90 verkefna sem efla munu atvinnuþróun og menningu í landshlutanum. Þetta er önnur úthlutun sjóðsins sem hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni í samræmi við sóknaráætlun landshlutans.

Alls bárust 150 umsóknir sem er svipaður fjöldi og í fyrra. Áætlaður heildarkostnaður við þessi 150 verkefni er rúmar 807 m.kr. Sótt var um rúmar 221 m.kr. og úthlutað sem fyrr segir 55,5 m.kr. sem er örlítið lægri upphæð en í fyrra þegar 58 m.kr. var úthlutað.

Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs Austurlands, segir ánægjulegt hversu margar umsóknir bárust. Ákveðið var í haust að þýða helstu umsóknargögn yfir á ensku og telur hún að það hafi skilað sér í auknum fjölda umsókna sem margar hverjar voru afskaplega faglega unnar. Signý segir að það hafi líka vakið athygli hversu öflugar umsóknir um skógræktarverkefni hefðu borist. Þessi atvinnugrein hafi vissulega verið áberandi í styrkúthlutunum áður en aldrei með jafn fjölbreyttum og áhugaverðum verkefnum og nú.

Hæsta styrkinn að þessu sinni fær Tanni Travel eða 4,3 m.kr. til tveggja verkefna; 3,5 m.kr. til verkefnisins Fly Europe sem snýr að sölu flugsæta með beinu flugi Discover the World milli Egilsstaðaflugvallar og Lundúna sumarið 2016 og 800 þúsund kr. til Meet the locals en það verkefni snýst um að heimamenn taka á móti ferðamönnum á persónulegum nótum. Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, hlýtur 2,7 m.kr. til tveggja verkefna; 2,1 m.kr. til sýningardagskrár Skaftfells 2016 og 600 þúsundir kr. til fræðsluverkefnis miðstöðvarinnar. Þá hlýtur LungA – listahátíð ungs fólks á Austurlandi 2,5 m.kr. og Wasabi Iceland ehf. fær 2,2 m.kr. til vefjaræktunar á wasabi í rannsóknaraðstöðu. Heildarlisti yfir styrkþega Uppbyggingarsjóðs Austurlands er hér fyrir neðan.

Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður og því hljóta þau verkefni styrk sem uppfylla flest skilyrði skv. úthlutunarreglum, auk þess sem vandaðar umsóknir og viðskiptaáætlanir fyrir stærri verkefni töldust afar mikilvægar við mat á umsóknum.

Athöfnin fór fram í Skaftfelli á Seyðisfirði, miðstöð myndlistar á Austurlandi. Hafliði Hörður Hafliðason formaður úthlutunarstjórnar Uppbyggingarsjóðs Austurlands afhenti styrkina ásamt Signýju Ormarsdóttur, verkefnastjóra Uppbyggingarsjóðs Austurlands, og flutti að auki ávarp. Björg Björnsdóttir, verkefnastjóri Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, flutti einnig ávarp. Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðar, stjórnaði dagskrá. Þá voru nemendur LungA skólans með listviðburð fyrir gesti en skólinn er nú á þriðja starfsári. Að þessu sinni eru nemendur og kennarar LungA skólans frá 11 mismunandi þjóðlöndum.

Listi yfir styrkþega 2016 

20160203 17103720160203 164003 20160203 162717

 

Jólakveðjur frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi

Jólakveðja SSA

 

Sameiginleg áskorun landshlutasamtakanna til þingmanna og ráðherra

Landshlutasamtök á öllu landinu hafa sent sameiginlega áskorun til ráðherra og alþingismanna um að tryggja við gerð fjárlaga fyrir árið 2016 verði aukin framlög til eftirtalinna málaflokka sem allir eru gríðarlega mikilvægir fyrir byggðaþróun til framtíðar.
• Þjónusta við fatlað fólk
• Samningar um sóknaráætlun
• Samgöngumál (nýframkvæmdir, viðhald og þjónusta)
• Almenningssamgöngur
• Ljósleiðaravæðing

Landshlutasamtökin eru sem fyrr reiðubúin til að leggjast á árar með sínum kjörnu fulltrúum og ríkisvaldinu við að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Það verður þó ekki gert nema vilji til þess sjáist í fjárlagafrumvarpinu gagnvart þessum lykilmálum.

Áskorunina í heild sinni má lesa hér

 

 

Ályktanir aðalfundar SSA 2015

Hópmynd SSA 2015 minniAðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fór fram á Hótel Framtíð, Djúpavogi dagana 2-. 3. október sl. Sveitarstjórnarmenn þeirra átta sveitarfélaga sem mynda landshlutasamtökin samþykktu á fundinu sameiginlegar ályktanir landshlutans. Þá voru afhent Menningarverðlaun SSA 2015 og heiðursgestur úr hópi sveitarstjórnarmanna heiðraður.

Samþykkt ályktana er megin verkefni aðalfundarins en þær móta stefnu landshlutans á öllum sviðum. Fjórar starfsnefndir, allsherjar- og samstarfsnefnd, byggða- og atvinnumálanefnd, mennta- og menningarmálanefnd og umhverfis- og samgöngumálanefnd fóru yfir tillögur stjórnar og annarra fulltrúa um ályktanir, unnu þær áfram og lögðu fram til atkvæðagreiðslu. Stjórn SSA er svo falið að fylgja eftir ályktunum aðalfundarins.

Fjölbreytt dagskrá var á aðalfundinum. Boðið var upp á fimm málstofur þar sem fjallað var um þjónustu við fatlað fólk, almenningssamgöngur, svæðisskipulag, umhverfismál og ljósleiðaravæðingu. Hátíðarávarp var í höndum Ólafar Nordal innanríkisráðherra en innanríkisráðuneytið fer með málefni sveitarstjórnarstigsins. Steingrímur J. Sigfússon, 4. þingmaður Norðausturkjördæmis ávarpaði fundinn fyrir hönd þingmannahóps kjördæmisins en þeir sátu velflestir fundinn.

Menningarverðlaun SSA 2015 féllu í skaut Rúllandi snjóbolta 6/Djúpivogur og tók Alfa Freysdóttir, verkefnisstjóri á móti þeim í hátíðarkvöldverði aðalfundarins. Rúllandi snjóbolti/6, Djúpivogur er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center) í Xiamen, Kína. Sýningin var opnuð með viðhöfn í Bræðslunni á Djúpavogi 11. júlí og stóð til 22. ágúst. Þá var Þórdís Bergsdóttir, fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúi frá Seyðisfirði heiðruð fyrir áralangt framlag sitt og starf í þágu landshlutans.

Starfssvæði SSA nær frá Vopnafirði að Djúpavogi og eiga átta sveitarfélög aðild að sambandinu: Djúpavogshreppur, Breiðdalshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjörður.

SSA vinnur að hagsmunum sveitarfélaganna á Austurlandi og er ætlað að starfa í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því sem við verður komið, auk þess sem þau hafa forgöngu um samgöngu-, atvinnu- og byggðaþróunarverkefni í landshlutanum.

Menningarverðlaun minni Heiðursgestur minni Heiðursgestur b minni

 
Síða 6 af 11
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is