• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

58 milljónir til 85 verkefna

Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði AusturlandsÍ gær var í fyrsta skipti úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands. Alls fengu 85 verkefni 58 milljónir króna til þess að efla atvinnuþróun og menningu í landshlutanum. 147 umsóknir bárust og var heildarupphæð verkefnanna um 796 milljónir króna. Sótt var um tæpar 226 milljónir og fengu 85 verkefni styrk. Heildarupphæð styrkja nam 58 milljónum króna.

Úthlutunarnefnd Uppbygginarsjóðs leitaðist við að styrkja frekar færri verkefni en veita frekar hærri upphæðum til þeirra. Þannig vonast hún til að styrkþegar eigi betri möguleika til að framkvæma það sem fyrirhugað er og að verkefnin geti jafnframt þróast til frekari vaxtar á næstu árum. 

Hæstu styrkina hlaut Sigurðardóttir ehf. - alls 3,6 milljónir - fyrir verkefni sem tengjast verðlaunaverkefninu Austurland – Designs From Nowhere. Óbyggðasetur Austurlands, LungA og Sköpunarmiðstöðin Stöðvarfirði fengu 3 milljónir hvert en aðrir fengu minna. Á heildarlista yfir styrkþega Uppbyggingarsjóðs Austurlands má fá nánari upplýsingar um styrkþega og verkefni þeirra.

Í upphafi árs undirrituðu atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband sveitarfélaga á Austurlandi samning um sóknaráætlun Austurlands og er Uppbyggingarsjóður Austurlands hluti hans. Hann hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun landshlutans og leysir af hólmi af menningar- og vaxtarsamninga Austurlands og fyrri samning um sóknaráætlun. Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður og því hljóta þau verkefni styrk sem uppfylla flest skilyrði skv. úthlutunarreglum, auk þess sem vandaðar umsóknir og viðskiptaáætlanir fyrir stærri verkefni töldust afar mikilvægar við mat á umsóknum.

Ljósmynd: Andrés Skúlason.

 

 

Stefnt að úthlutun úr Uppbyggingarsjóði í maí

SL austurland-01Auglýst var eftir umsóknum í Uppbyggingarsjóð Austurlands í mars sl. Ríflega 140 umsóknir bárust og nú fara fagráð yfir þær. Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðsins gerir ráð fyrir að ljúka störfum í maí. Tilgangur sjóðsins er að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni og önnur verkefni á Austurlandi.

Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður sem tekur við af menningar- og vaxtarsamningum Austurlands. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun frá árinu 2013 en fram skal tekið að unnið er að nýrri sóknaráætlun landshlutans á grunni samnings sem atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband sveitarfélaga á Austurlandi undirrituðu í febrúar árið 2015 og mun gilda til 2019. Á árinu 2015 verður hins vegar stuðst við sóknaráætlun frá árinu 2013.

Í ár verður úthlutað tæpum 60 milljónum króna og við úthlutun tekur sjóðurinn mið af trúverðugleika umsóknar, vaxtarmöguleika verkefnisins, mögulegrar atvinnuuppbyggingar, hvort verkefnið stuðli að vexti mannauðs á Austurlandi og sem fyrr segir að verkefnið stuðli að framkvæmd sóknaráætlunar og ýti undir samstarf innan Austurlands. Sjóðurinn mun að jafnaði ekki styrkja meira en 50% af heildarkostnaði verkefna. Auglýst verður opinberlega, minnst einu sinni á ári, eftir umsóknum. Stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum styrktum af uppbyggingarsjóði landshlutans. Austurbrú hefur umsýslu með sjóðnum.

 

Sameiginleg áskorun landshlutasamtaka um samgöngumál

Landshlutasamtök sveitarfélaga samþykktu áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar á fundi þann 16. apríl 2015. Í áskorunni er lýst þungum áhyggjum að stöðu samgöngukerfisins í landinu og viðvarandi fjárskorti til viðhalds og nýframkæmda. Ályktunina má finna hér.

 

Samningur um sóknaráætlun Austurlands

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband sveitarfélaga á Austurlandi hafa undirritað samning um sóknaráætlun Austurlands 2015 til 2019 Alls renna um 95 milljónir króna til Austurlands. Sigrún Blöndal, formaður SSA segir samninginn hafa mikla þýðingu fyrir atvinnu, nýsköpunar- og menningartengd tækifæri á Austurlandi.

Með samningnum er verið að sameina sóknaráætlanir landshluta, vaxtarsamninga og menningarsamninga. Heildarupphæð samninganna á landinu öllu er ríflega 550 milljónir króna. Til sóknaráætlunar Austurlands renna alls tæplega kr. 95.000.000 á ári með fyrirvara um samþykki fjárlaga. Við það bætast kr. 9.836.000 sem frá sveitarfélögum á Austurlandi.

IMG 3069 minni

Sem fyrr segir er verið að sameina fjóra potta úr tveimur ráðuneytum; menningarsamningar, framlög til menningartengdrar ferðaþjónustu, vaxtarsamningar og gömlu sóknaráætlanirnar. Til viðbótar koma svo framlög sveitarfélaganna í hverjum landshluta sem mótframlag til menningarmála. Landshlutasamtökunum er falið að ráðstafa fjármagni allra þessara liða í samræmi við eigin sóknaráætlanir. Með samningnum verður til nýr Uppbyggingarsjóður. Nú er unnið að úthlutunarreglum og skipun úthlutunarnefndar og fagráða en auglýst verður eftir umsóknum um sjóðum eins fljótt og auðið er.

Sigrún Blöndal, formaður SSA, segir samninginn hafi mikla þýðingu fyrir atvinnu-, nýsköpunar- og menningartengd tækifæri á Austurlandi. Sveitarfélögin hafi ekki bolmagn til að veita slíku fé í verkefni af þessu tagi. Verkefni SSA á næstu árum verður að sækja enn meira fé til ríkisins í þau verkefni sem ekki eru nú þegar eyrnamerkt fyrirfram skilgreindum verkefnum á sviði atvinnu, nýsköpunar og menningar. „Það geta verið ýmis konar áhersluverkefni innan landshlutanna eins og t.d. gerð svæðisskipulags eða efling Egilsstaðaflugvallar. Við þurfum meira fjármagn í slík verkefni og að það verður að tryggja til lengri tíma,“ segir Sigrún.

Sigurður Ingi Jóhannesson, ráðherra atvinnu og nýsköpunar, Illugi Gunnarsson, ráðherra mennta og menningar og formenn landshlutasamtakanna undirrituðu samninginn 10. febrúar sl. Vegna veðurs komust fulltrúar Eyþings og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi ekki til undirskriftarinnar í Reykjavík og því var skrifað undir samningana 11. febrúar sl. á sameiginlegum fundi Eyþings og SSA með þingmönnum Norðausturkjördæmis í Mývatnssveit.

Samning um sóknaráætlun fyrir Austurland 2015-2019 má finna á heimasíðu SSA.

 
Síða 7 af 11
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is