• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Sameiginleg áskorun landshlutasamtakanna til þingmanna og ráðherra

Landshlutasamtök á öllu landinu hafa sent sameiginlega áskorun til ráðherra og alþingismanna um að tryggja við gerð fjárlaga fyrir árið 2016 verði aukin framlög til eftirtalinna málaflokka sem allir eru gríðarlega mikilvægir fyrir byggðaþróun til framtíðar.
• Þjónusta við fatlað fólk
• Samningar um sóknaráætlun
• Samgöngumál (nýframkvæmdir, viðhald og þjónusta)
• Almenningssamgöngur
• Ljósleiðaravæðing

Landshlutasamtökin eru sem fyrr reiðubúin til að leggjast á árar með sínum kjörnu fulltrúum og ríkisvaldinu við að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Það verður þó ekki gert nema vilji til þess sjáist í fjárlagafrumvarpinu gagnvart þessum lykilmálum.

Áskorunina í heild sinni má lesa hér

 

 

Ályktanir aðalfundar SSA 2015

Hópmynd SSA 2015 minniAðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fór fram á Hótel Framtíð, Djúpavogi dagana 2-. 3. október sl. Sveitarstjórnarmenn þeirra átta sveitarfélaga sem mynda landshlutasamtökin samþykktu á fundinu sameiginlegar ályktanir landshlutans. Þá voru afhent Menningarverðlaun SSA 2015 og heiðursgestur úr hópi sveitarstjórnarmanna heiðraður.

Samþykkt ályktana er megin verkefni aðalfundarins en þær móta stefnu landshlutans á öllum sviðum. Fjórar starfsnefndir, allsherjar- og samstarfsnefnd, byggða- og atvinnumálanefnd, mennta- og menningarmálanefnd og umhverfis- og samgöngumálanefnd fóru yfir tillögur stjórnar og annarra fulltrúa um ályktanir, unnu þær áfram og lögðu fram til atkvæðagreiðslu. Stjórn SSA er svo falið að fylgja eftir ályktunum aðalfundarins.

Fjölbreytt dagskrá var á aðalfundinum. Boðið var upp á fimm málstofur þar sem fjallað var um þjónustu við fatlað fólk, almenningssamgöngur, svæðisskipulag, umhverfismál og ljósleiðaravæðingu. Hátíðarávarp var í höndum Ólafar Nordal innanríkisráðherra en innanríkisráðuneytið fer með málefni sveitarstjórnarstigsins. Steingrímur J. Sigfússon, 4. þingmaður Norðausturkjördæmis ávarpaði fundinn fyrir hönd þingmannahóps kjördæmisins en þeir sátu velflestir fundinn.

Menningarverðlaun SSA 2015 féllu í skaut Rúllandi snjóbolta 6/Djúpivogur og tók Alfa Freysdóttir, verkefnisstjóri á móti þeim í hátíðarkvöldverði aðalfundarins. Rúllandi snjóbolti/6, Djúpivogur er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center) í Xiamen, Kína. Sýningin var opnuð með viðhöfn í Bræðslunni á Djúpavogi 11. júlí og stóð til 22. ágúst. Þá var Þórdís Bergsdóttir, fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúi frá Seyðisfirði heiðruð fyrir áralangt framlag sitt og starf í þágu landshlutans.

Starfssvæði SSA nær frá Vopnafirði að Djúpavogi og eiga átta sveitarfélög aðild að sambandinu: Djúpavogshreppur, Breiðdalshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjörður.

SSA vinnur að hagsmunum sveitarfélaganna á Austurlandi og er ætlað að starfa í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því sem við verður komið, auk þess sem þau hafa forgöngu um samgöngu-, atvinnu- og byggðaþróunarverkefni í landshlutanum.

Menningarverðlaun minni Heiðursgestur minni Heiðursgestur b minni

 

58 milljónir til 85 verkefna

Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði AusturlandsÍ gær var í fyrsta skipti úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands. Alls fengu 85 verkefni 58 milljónir króna til þess að efla atvinnuþróun og menningu í landshlutanum. 147 umsóknir bárust og var heildarupphæð verkefnanna um 796 milljónir króna. Sótt var um tæpar 226 milljónir og fengu 85 verkefni styrk. Heildarupphæð styrkja nam 58 milljónum króna.

Úthlutunarnefnd Uppbygginarsjóðs leitaðist við að styrkja frekar færri verkefni en veita frekar hærri upphæðum til þeirra. Þannig vonast hún til að styrkþegar eigi betri möguleika til að framkvæma það sem fyrirhugað er og að verkefnin geti jafnframt þróast til frekari vaxtar á næstu árum. 

Hæstu styrkina hlaut Sigurðardóttir ehf. - alls 3,6 milljónir - fyrir verkefni sem tengjast verðlaunaverkefninu Austurland – Designs From Nowhere. Óbyggðasetur Austurlands, LungA og Sköpunarmiðstöðin Stöðvarfirði fengu 3 milljónir hvert en aðrir fengu minna. Á heildarlista yfir styrkþega Uppbyggingarsjóðs Austurlands má fá nánari upplýsingar um styrkþega og verkefni þeirra.

Í upphafi árs undirrituðu atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband sveitarfélaga á Austurlandi samning um sóknaráætlun Austurlands og er Uppbyggingarsjóður Austurlands hluti hans. Hann hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun landshlutans og leysir af hólmi af menningar- og vaxtarsamninga Austurlands og fyrri samning um sóknaráætlun. Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður og því hljóta þau verkefni styrk sem uppfylla flest skilyrði skv. úthlutunarreglum, auk þess sem vandaðar umsóknir og viðskiptaáætlanir fyrir stærri verkefni töldust afar mikilvægar við mat á umsóknum.

Ljósmynd: Andrés Skúlason.

 

 

Stefnt að úthlutun úr Uppbyggingarsjóði í maí

SL austurland-01Auglýst var eftir umsóknum í Uppbyggingarsjóð Austurlands í mars sl. Ríflega 140 umsóknir bárust og nú fara fagráð yfir þær. Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðsins gerir ráð fyrir að ljúka störfum í maí. Tilgangur sjóðsins er að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni og önnur verkefni á Austurlandi.

Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður sem tekur við af menningar- og vaxtarsamningum Austurlands. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun frá árinu 2013 en fram skal tekið að unnið er að nýrri sóknaráætlun landshlutans á grunni samnings sem atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband sveitarfélaga á Austurlandi undirrituðu í febrúar árið 2015 og mun gilda til 2019. Á árinu 2015 verður hins vegar stuðst við sóknaráætlun frá árinu 2013.

Í ár verður úthlutað tæpum 60 milljónum króna og við úthlutun tekur sjóðurinn mið af trúverðugleika umsóknar, vaxtarmöguleika verkefnisins, mögulegrar atvinnuuppbyggingar, hvort verkefnið stuðli að vexti mannauðs á Austurlandi og sem fyrr segir að verkefnið stuðli að framkvæmd sóknaráætlunar og ýti undir samstarf innan Austurlands. Sjóðurinn mun að jafnaði ekki styrkja meira en 50% af heildarkostnaði verkefna. Auglýst verður opinberlega, minnst einu sinni á ári, eftir umsóknum. Stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum styrktum af uppbyggingarsjóði landshlutans. Austurbrú hefur umsýslu með sjóðnum.

 
Síða 8 af 13
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is