• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Landsskipulagsstefna og skipulagsgerð sveitarfélaga

Skipulagsstofnun kynnir auglýsta tillögu að Landsskipulagsstefnu 2015-2026 á opnum fundi á Hótel Héraði þann 27. janúar kl. 15 - 17. Á fundinum verður tillagan kynnt auk þess sem að fjallað verður sérstaklega um framfylgd landsskipulagsstefnu í skipulagsgerð sveitarfélaga svo sem við endurskoðun aðalskipulags. Jafnframt verður bein útsending frá kynningu í Reykjavík þann 29. janúar kl. 15-17 og má sjá hana á heimasíðu Skipulagsstofnunar.

Tillöguna, ásamt umhverfismati og fylgiskjali, Skipulagsmál á Íslandi 2014 – lykilmælikvarðar og fyrirliggjandi áætlanir, má nálgast á www.landsskipulag.is og www.skipulagsstofnun.is, en frestur til að skila athugasemdum er til 13. febrúar 2015.

 

Jólakveðja frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi

5114 ssa jola-page-0

 

Áhugavert innlegg í umræðu um lögregluumdæmi

Hilmar Gunnlaugsson, Jón Jónsson og Eva Dís Pálmadóttir, hæstaréttarlögmenn skrifuðu grein sem birtist í Morgunblaðinu á dögunum. Þar er fjallað um ákvörðun starfandi ráðherra dómsmála um að rita undir reglugerð um lögregluumdæmi. Greinin birtist hér að neðan með góðfúslegu leyfi höfunda. 

Lögreglan á Höfn, rakalaus umræða – tilraun til úrbóta

Sú ákvörðun starfandi ráðherra dómsmála um að rita undir reglugerð um lögregluumdæmi hefur vakið nokkra athygli. Með reglugerðinni fellur niður eldri reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna og lögregluumdæmi lögreglustjóra nr. 66 frá 2007. Skipan A-Skaftafellssýslu í lögregluumdæmi er því óbreytt og engin efnisleg rök hafa komið fram um breytingar.

Fyrir þá sem þekkja til réttarkerfisins er auðvelt að koma auga á rök sem styðja niðurstöðu ráðherra. Verða nokkur þeirra nefnd, án þess þó að fara ítarlega í hvert atriði um sig.

1. Það er engu verið að breyta!
Tillaga ráðherra festir í sessi það fyrirkomulag sem hefur verið frá því að embætti lögreglustjóra var lagt niður á Höfn og fært undir lögreglustjórann á Eskifirði árið 2007. Ríflega 7 ára starfi væri ella varpað fyrir róða án sýnilegra raka.
2. Lögreglumál á Höfn tilheyra Austurlandi.
Meðan sjálfstæður lögreglustjóri var á Höfn, þá flutti hann opinber mál sín fyrir héraðsdómi Austurlands. Á þessu varð því engin breyting þegar lögreglustjórinn á Eskifirði tók við yfirstjórn lögreglunnar á Höfn. Þessi skipan hefur verið við lýði frá 1991, en fram að þeim tíma fóru sýslumenn einnig með dómsvald.
3. Eðlilegt að umdæmi dómstóla og saksóknara fari saman.
Er það eðlileg meðferð á opinberu fé, að lögreglustjórinn á Suðurlandi, sem verður með aðalskrifstofu sína á Hvolsvelli, en væntanlega öfluga starfsstöð á Selfossi, fari til Egilsstaða til að flytja sakamál sem upp koma í umdæmi lögreglunnar á Höfn? Hinn kosturinn væri að breyta umdæmum héraðsdóms, en engin umræða hefur átt sér stað um slíkt, en þá þyrfti að breyta lögum 15/1998 um dómstóla. Ráðherra verður að taka tillit til gildandi laga sem tengjast málinu.
4. Fjarlægðir.
Fjarlægðir í km. frá lögreglustöðinni á Höfn til annarra lögreglustöðva í umræddum umdæmdum eru:

Mynd HG

Við teljum blasa við hvaða skipan styrkir lögreglustarf á Höfn, m.t.t. viðbragðstíma þegar þörf væri á aðstoð frá öðrum lögreglumönnum sama umdæmis. Fjarlægðirnar hafa jafnframt þýðingu varðandi staðsetningu rannsóknarlögreglumanna og hvers kyns innri starfsemi embættisins.
5. Fjarlægðir í dómsmálum.
Þegar mál fara frá lögreglustjórum til dómstóla, er bent á að þingstaður héraðsdóms Austurlands er á Egilsstöðum en á Suðurlandi á Selfossi. Í flestum tilvikum þurfa aðilar máls, vitni og starfsmenn embætta að keyra fram og til baka. Kostnaður lögregluembættis og samfélags tæki því mið af 802 km akstri á Selfoss. Hinn kosturinn væri að halda aðalmeðferð á Höfn, með tilheyrandi ferðalagi starfsmanna annars hvors héraðsdóms til Hafnar. Á Austurlandi væri akstur til Egilsstaða 370 km. Munurinn fram og til baka er yfir 430 km ef tekin yrði sú ákvörðun að breyta lögum svo mál frá Höfn ættu undir héraðsdóm Suðurlands.
6. Afleidd áhrif.
Störf lögmanna tengjast eðli málsins samkvæmt mjög störfum dómstóla, lögreglustjóra og sýslumanna. Segja má að þessi embætti séu ákveðin grunnur í starfsemi lögmanna á landsbyggðinni. Í dag starfa 8 lögmenn á Austurlandi með annað eins af starfsmönnum. Fyrirséð er að töluvert af verkefnum þessara aðila færist af svæðinu ef umdæmaskipan breytist. Ástandið í þessum málum er mun brothættara á Austurlandi en Suðurlandi.
7. Sjónarmið lögreglunnar.
Eftir upplýsingum okkar liggur ekkert fyrir um að ósk hafi komið frá lögreglumönnum eða öðrum fagaðilum um að breyta núverandi skipan. Það er þó ekki dregið í efa að lögreglumenn mæti hvorum kostinum sem er með opnum huga. Aðalatriði þeirra hlýtur að vera aðbúnaður og álag. Nefna má að sakamálum tengdum A-Skaftafellssýslu hefur fækkað með eftirtektarverðum hætti og allar líkur á að starf lögreglu á svæðinu hafi þar haft mikið vægi.

Ofangreind rök eru að okkar mati málefnaleg og eðlilegt að litið sé til þeirra. Núverandi tilhögun styrkir jafnframt lögregluna á Austurlandi í heild sinni. Lögreglan verður skipuð fleiri lögreglumönnum, sterkari grunnur verður fyrir auknum mannafla í rannsóknarstörfum og við saksókn.

Öll ofangreind rök eiga einnig við þegar kemur að ákvörðun um umdæmamörk sýslumanna, en beðið er reglna um þau.

Vonandi eru einhverjir fjölmiðlar tilbúnir til að velta efnisrökum málsins fyrir sér. Það er a.m.k. hughreystandi að stjórnvöld skuli gera það.

Höfundar reka lögmannsstofuna Sókn og eru búsett á Austurlandi,

Hilmar Gunnlaugsson hrl.
Jón Jónsson hrl.
Eva Dís Pálmadóttir hrl.

 

Þungar áhyggjur af lokun Upplýsingamiðstöðvar Austurlands

DSCF3783Framkvæmdaráð Sambands sveitarfélaga á Austurlandi lýsir yfir þungum áhyggjum yfir þeirri stöðu sem nú er komin upp í landshlutanum með lokun Upplýsingamiðstöðvar Austurlands. Ljóst er að hið opinbera verður að tryggja frekara fjármagn til rekstursins, ekki síst í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi vegna eldgoss í Holuhrauni. Samræmi verður að vera á milli þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið opinberlega um „Ísland allt árið“ og þess fjármagns sem veitt er til upplýsingagjafar til ferðamanna. Vísað er til ályktunar SSA um þetta efni:

„Aðalfundur SSA haldinn á Vopnafirði 19. og 20. september 2014 telur að upplýsingamiðstöðvar séu afar mikilvægur þáttur í að fjölga áfangastöðum ferðamanna, vísa þeim leið og tryggja góða umgengni um landið. Því skorar aðalfundur SSA á stjórnvöld að auka fjármagn til upplýsingamiðstöðva á Austurlandi þannig að þeir fjármunir dugi til að þjónusta ferðamenn og auka öryggi þeirra allt árið.“

 
Síða 8 af 11
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is