• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Dagar myrkurs á Austurlandi

large mynd-dagarmyrkursMenningarveislan austfirska „Dagar myrkurs“ hefst fimmtudaginn 6. nóvember og stendur til 16. nóvember. Tónlist og myndlist verða í öndvegi, hlaðborð og þjóðlegir réttir, kertaljós og kósý-stundir, ljóðalestur, draugagangur og afturganga, bílabíó og ástardagar, sviðamessa, myrkra- og grímuböll, og stjörnum og norðurljósum fagnað svo eitthvað sé nefnt.

Dagar myrkurs voru haldnir í fyrsta sinn í nóvember árið 2000 af Markaðsstofu Austurlands sem hefur hýst verkefnið allar götur síðan. Verkefnið er því í dag hluti af markaðsstarfi Austurbrúar og hefur verið skipulagt með svipuðum hætti frá upphafi.

Þetta er byggðahátíð Austurlands þar sem gervallur fjórðungurinn leggst á eitt til að gera íbúum og gestum þeirra glaða daga í svartasta skammdeginu og lýsa það upp – ellegar undirstrika það með skírskotun í ríkan drauga- og vættaarf. Í tíu daga rekur svo hver viðburðurinn annan í hverju bæjarfélagi og ættu háir sem lágir að finna eitthvað við sitt hæfi í dagskránni. Listafólk leggur lóð sín á vogarskálarnar; tónlist og myndlist, hlaðborð og þjóðlegir réttir, kertaljós, ljóðalestur, draugagangur og afturganga, bílabíó og ástardagar, sviðamessa, myrkra- og grímuböll, og stjörnum og norðurljósum fagnað svo eitthvað sé nefnt. Verslanir og þjónustuaðilar bjóða freistandi tilboð á vörum, veitingum og gistingu í tilefni daganna. Á Dögum myrkurs er jafnframt góður tími til að heimsækja söfn og sýningar, sundlaugar og bókasöfn sem öll taka vel á móti gestum með upplýsandi viðburðum tengdum myrkrinu og ljósinu.

Þá má geta þess að Austurbrú stendur fyrir leik á Facebook þar sem fólk er hvatt til að taka ljósmyndir sem fanga myrkrið og skammdegið á einhvern hátt. Sá eða sú sem sendir inn bestu myndina af viðburðum Daga myrkurs með hashtaginu #dagarmyrkurs getur unnið flug til höfuðborgarinnar í boði Flugfélag Íslands.

Ítarlega dagskrá Daga myrkurs má finna á vefnum east.is.

 

Nýr verkefnisstjóri sveitarstjórnarmála

large bjorgbw1Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) hefur, í samráði við framkvæmdastjóra Austurbrúar, falið Björgu Björnsdóttur verkefnastjórn málefna sveitarstjórnarstigsins. Hún tekur til starfa 1. nóvember nk.

Samkvæmt nýju skipuriti Austurbrúar, fer starfsmaður stofnunarinnar með málefni sveitarstjórnarstigsins. Stjórn SSA hefur, í samráði við Jónu Árnýju Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Austurbrúar, falið Björgu Björnsdóttur þetta hlutverk og tekur hún til starfa 1. nóvember nk. Verkefnastjóri málefna sveitarstjórnarstigsins ber ábyrgð á rekstri SSA og þeim verkefnum sem teljast til umsýslu sambandsins, skv. þjónustusamningi milli Austurbrúar og SSA. Hann er auk þess hluti af stjórnendateymi Austurbrúar.

Þjónustusamningur SSA og Austurbrúar tryggir stjórn SSA m.a. aðkomu að ráðningu og fullt boðvald yfir þeim starfsmanni sem sér um daglegan rekstur SSA auk þess sem þar eru tíunduð þau verkefni sem falla undir starfsvið verkefnastjórans.

Björg Björnsdóttir hefur undanfarið ár sinnt starfi verkefnastjóra á nýsköpunar- og þróunarsviði Austurbrúar. Hún hefur víðtæka reynslu að baki; var meðal annars verkefnastjóri samstarfsverkefna Háskóla Íslands og kynningarstjóri Þjóðleikhússins. Björg er búsett á Egilsstöðum.

Ljósmynd: Dagur Gunnarsson.

 

Úthlutun styrkja úr vaxtarsamningi

large vaxaRitsmiðja Austurlands, Sjóferðir Austurlands og jarðfræðitengd steinasýning eru meðal þeirra verkefna sem hlutu styrk frá Vaxtarsamningi Austurlands að þessu sinni. Átta verkefni voru styrkt en þetta er önnur úthlutun Vaxtarsamningsins á þessu ári.

Samtals var úthlutað 9.500.000 krónum en alls bárust tuttugu umsóknir að upphæð 39.975.000 króna. Vaxtarsamningur Austurlands er samningur milli Austurbrúar ses. og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Stefna hans er að styðja við uppbyggingu í anda náttúru og sjálfbærni og er honum ætlað að styðja við þau verkefni sem falla undir markmið hans. Meginhugmyndin að baki Vaxtarsamningsins er að ýta undir samstarf í svokölluðum klösum þar sem leitast er við að efla samvinnu fyrirtækja og stofnana á ákveðnum sviðum sem á einhvern hátt geta unnið saman og nýtt styrkleika hvers annars. Vaxtarsamningurinn er í umsjón Austurbrúar ses. sem hefur það meginmarkmið að efla Austurland sem eftirsóttan valkost til búsetu og fjárfestinga.

Stjórn samningsins fundaði 20. október sl. og ákveðið var að styrkja eftirfarandi verkefni:

• Ritsmiðja Austurlands, Gunnar Gunnarsson og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, 1.000.000,-
• Afurðamiðstöð viðarafurða, Jóhann F. Þórhallsson, 1.200.000,-
• Grafít ehf., Alfa Freysdóttir, 300.000,-
• Jarðfræðitengd steinasýning í hjarta Breiðdalsvíkur, Christa Maria Feucht, 800.000,-
• LungA skólinn, Aðalheiður Borgþórsdóttir, 2.000.000,-
• Starfsfolk.is, Guðmundur R. Gíslason og Marías Ben. Kristjánsson, 2.000.000,-
• Austurvarp, Gunnar Gunnarsson, 1.000.000,-
• Sjóferðir Austurlands, Elís Pétur Elísson, 1.200.000,-

 

Tíu ára blómlegt samstarf jaðarsvæða

large hugo-hildeFimmtudaginn 23. október verður ráðstefna í Norræna húsinu í Reykjavík í tilefni af tíu ára afmæli menningarsamstarfs jaðarsvæðanna Austurlands og Vesterålen í Noregi en það hefur getið af sér fjölda menningarviðburða og verkefna sem eflt hafa menningarlíf svæðanna til muna.

Á ráðstefnunni verður rakið upphaf, áherslur og afrakstur samstarfsins, sem hófst formlega fyrir tíu árum, og rætt hvort það geti nýst sem fyrirmynd fyrir aðra. Í heilan áratug hafa Austurland og Vesterålen staðið fyrir gagnkvæmum skiptum á myndlistar- og tónlistarmönnum, matreiðslu-meisturum og unglingahópum, námsferðir hafa verið farnar og ráðstefnur haldnar með fulltrúum atvinnulífs, menningarlífs og stjórnmála. Allt hefur þetta skilað sér í mun öflugra menningarlífi jaðarsvæðanna beggja.

Á ráðstefnunni verður leitast við að horfa á samstarfið og framtíð þess út frá norrænum áherslum, sjónarhorni listamannsins, stjórnsýslu og ekki síst nútíma menningarpólítík. Dagskrá hennar er fjölbreytt líkt og samstarfið sjálft: Nokkur erindi verða flutt m.a. mun Katrín Jakobsdóttir, bókmenntafræðingur og þingmaður, fjalla um mikilvægi norræns menningarsamstarfs, Elfa Hlín Pétursdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, kynnir rannsókn á félags- og menningarlegu virði framlags brottflutts ungs fólks á heimaslóðum þess, Signý Ormarsdóttir, fulltrúi menningar hjá Austurbrú, og Erik M. Bugge, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Vesterålen, munu fjalla um árangur og áherslur samstarfsins og Garðar Eðvaldsson, tónlistarmaður, segir frá þýðingu samstarfsins fyrir unga listamenn. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, munu ávarpa ráðstefnugesti.

Boðið verður upp á fleiri viðburði í tilefni tíu ára afmælis samstarfsins, m.a. tónleika þar sem ungir listamenn sem tekið hafa þátt í samstarfinu flytja frumsamin verk í bland við eldri, sjónlistasýningu, markaðstorg og írskt tónleikakvöld.

 
Síða 9 af 11
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is