• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Áfangastaðurinn Austurland tekur á sig mynd

large fbÞriggja ára sameiginlegri vinnu ferðaþjónustuaðila, sveitarfélaga og samfélagsins við að skilgreina Austurland sem áfangastað var ýtt úr vör í gær með dagsfundi á Hótel Hildibrand í Neskaupstað. Vinnuna leiðir sérfræðingur í svæðis- og áfangastaðahönnun, í samvinnu við Austurbrú og Ferðamálasamtök Austurlands. Þetta er í fyrsta sinn hér á landi sem slík áfangahönnun nær yfir heilan landshluta.

Fundurinn var vel sóttur og komu þátttakendur víða að. Markmiðið er að Austurland standi upp úr sem áfangastaður fyrir ferðamenn og ákjósanlegur staður til búsetu. Aðstandendur verkefnisins vona að með sameiginlegri stefnu í mótun svæðisins, samræmdum aðferðum og leiðbeiningum verði því markmiði náð, en hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu telja að slíkan grunn hafi skort hingað til. Ferðamálasamtök Austurlands áttu frumkvæði að verkefninu og var leitað eftir þátttöku sem flestra; sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings.

Eftir því sem næst verður komist, er þetta í fyrsta sinn hér á landi sem samstarf næst í heilum landshluta um slíka áfangastaðahönnun. Daniel Byström, sem ráðinn hefur verið til að leiða verkefnið í samvinnu við Austurbrú, er iðnhönnuður og einn eiganda hönnunarfyrirtækisins Design Nation, sem hefur sérhæft sig í svæðis- og áfangastaðahönnun. Hann hefur m.a. unnið að svipuðum verkefnum á jaðarsvæðum í Svíþjóð og Noregi auk þess sem hann tók þátt í Evrópuverkefninu „Creative Communities“ ásamt aðilum á Austurlandi og kann því bæði vel til verka og þekkir til svæðisins.

Þessi vinna er í samræmi við áherslur sveitarfélaga á Austurlandi um að Egilsstaðaflugvöllur verði ný fluggátt inn í landið og alþjóðleg samgöngumiðstöð. Á nýafstöðnum aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi kom fram ríkur vilji til að taka þátt í nauðsynlegri stefnumörkun sem þarf að eiga sér stað í íslenskri ferðaþjónustu. Bent var á að fjölgun ferðamanna og álag á ferðamannastaði á sunnanverðu landinu, sem og á Keflavíkurflugvöll, hefði náð þolmörkum og því brýnt að leita lausna til framtíðar. Fundurinn benti á Egilsstaðaflugvöll sem augljósa aðra fluggátt inn í landið og rökréttan hluta af þeirri heildarlausn sem nauðsynleg er í málefnum ferðaþjónustu á Íslandi.

 

Sigrún Blöndal nýr formaður SSA

large s-blondalNý stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi var kjörin á aðalfundi um síðustu helgi. Hana skipa Gunnar Jónsson, Sigrún Blöndal, Gauti Jóhannesson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Hákon Hansson, Jón Björn Hákonarson og Stefán Grímur Rafnsson. Sigrún var kjörin nýr formaður stjórnar SSA á fyrsta fundi stjórnar og tekur hún við af Valdimari O. Hermannssyni. Sigrún hefur verið bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði frá 2010 og er nú forseti bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði . Hún hefur áður setið í stjórn SSA og stjórn Austurbrúar auk þess að sitja í starfshópum og nefndum á vegum Fljótsdalshéraðs, SSA og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Aðalfundur SSA á Vopnafirði

large ssaAðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 2014 verður settur á Vopnafirði á morgun. Hann er haldinn í Vopnafjarðarskóla og stendur í tvo daga. Á fundinum eiga seturétt fulltrúar allra átta sveitarfélaganna sem eru aðilar að Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi.

Fyrir fundinum liggja allmargar tillögur að ályktunum sem teknar verða til umræðu í málefnahópum. Fyrir fundinum liggur m.a. tillaga um að ríkið efli geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi og þá má einnig búast við að umræður um tilflutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga verði áberandi.

Flestir þingmenn kjördæmisins sitja fundinn og mun Höskuldur Þórhallsson, þriðji þingmaður kjördæmisins, ávarpa fundinn. Þá verða flutt nokkur áhugaverð erindi. María Hjálmarsdóttir, starfsmaður Austurbrúar, mun fjalla um markaðssetningu Egilsstaðaflugvallar, Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, og Hrafnkell Lárusson, sagnfræðingur, munu fjalla um stöðu fjölmiðlunar á landsbyggðinni þar sem kastljósinu verður einkum beint að frammistöðu RÚV í því sambandi. Að lokum skal vakin sérstök athygli á fyrirlestri Ármanns Höskuldssonar, eldfjallafræðings, sem mun fjalla um eldsumbrotin norðan Vatnajökuls og ráðleggja sveitarstjórnarmönnum um hvernig þeir geti undirbúið sveitarfélögin fyrir áframhaldandi eldgos.

Á föstudagskvöldið munu fulltrúar og gestir sitja hátíðarkvöldverð og veita menningarverðlaun SSA. Aðalfundinum lýkur seinnipartinn á laugardag.

 

Sjávarútvegur á Austurlandi

large asgeir-fridrikUmfang sjávarútvegs á Austurlandi hafur vaxið jafnt og þétt og allar niðurstöður benda til þess að þróunin muni halda áfram á næstu árin. Þetta er megin niðurstaða úttektar sem unnin er af Ásgeiri Friðriki Heimissyni hagfræðinema við Háskóla Íslands. 

Úttektin, sem ber heitið „Umfang sjávarútvegs á Austfjörðum“, nær til sjávarútvegs á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Mjóafirði, Neskaupstað, Seyðisfirði, Stöðvarfirði og Vopnafirði. Helstu sjávarútvegsfyrirtækin á þessu svæði eru Brimberg hf., Eskja hf., Gullberg hf., Loðnuvinnslan hf., Síldarvinnslan hf. og auk þess starfrækir HB Grandi hf. næstum alla uppsjávarvinnslu sína á Vopnafirði. Í úttektinni er lagt mat á heildarumfang sjávarútvegs þessara fyrirtækja og leitast við að sundurliða hlut hans.

Í skýrslunni kemur fram að sjávarútvegur af svæðinu hefur mikil áhrif á hagkerfi landsins. Beint framlag áðurnefndra sjávarútvegsfyrirtækja árið 2012 var 17% af beinu framlagi sjávarútvegs á landsvísu; 4,2% af landsframleiðslu árið 2012 og útflutningsverðmæti sjávarafurða var u.þ.b. 46 milljarðar eða 17,3% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2012 og 7,3% af heildar útflutningsverðmæti Íslendinga það ár.

Mikil uppbygging hefur verið á Austfjörðum og umfang sjávarútvegs á svæðinu vaxið jafnt og þétt. Allt bendir til þess að þessi þróun haldi áfram næstu árin. Framleiðni í sjávarútvegi á svæðinu er mikil, hefur vaxið um 20% að meðaltali á ári síðan 2005 og mun meira að meðaltali en í öðrum atvinnugreinum og í sjávarútvegi á landsvísu. Þá er framleiðni vinnuafls í fiskvinnslu á Austfjörðum 25% meiri en í fiskvinnslu að meðaltali á landinu.

Niðurstöður úttektarinnar benda til þess að 3.400 til 4.700 störf í hagkerfinu séu tilkomin vegna umfangs sjávarútvegs á því svæði sem skoðað var en þar af starfa einungis 618 beint við sjávarútveg.

Úttektin má nálgast hér.

 
Síða 10 af 11
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is