• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Styrkir til háskólanáms

Minningarsjóður Ragnhildar B. Metúsalemsdóttur og Stefáns Péturssonar

Umsóknir 2018

Með vísan til 8. gr. skipulagsskrár Minningarsjóðs presthjónanna Ragnhildar B.

Metúsalemsdóttur og Stefáns Péturssonar er hér með auglýst eftir umsóknum

um tvo styrki að upphæð 50.000 kr. úr sjóðnum árið 2018. Tekið er fram að styrkir úr sjóðnum eru gefnir upp á launamiðum til styrkþega í ársbyrjun 2019. Tilgangur sjóðsins er að veita námsfólki búsettu á Austurlandi styrki til háskólanáms.

Umsóknum skal skila rafrænt til Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á netfangið Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. fyrir 1. júní 2018. Umsókn skal fylgja staðfesting á námi.

 

Sveitarfélögin og ferðaþjónustan

Föstudaginn 3. mars nk. stendur Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir málþingi undir yfirskriftinni „Sveitarfélögin og ferðaþjónustan“. Markmið málþingsins er að sveitarstjórnarmenn komi saman til þess að ræða málefni ferðaþjónustu og þær áskoranir og tækifæri sem felast í fjölgun ferðamanna sem leggja leið sína hingað til lands. Málþingið hefur jafnframt verið kynnt fyrir fulltrúum ferðaþjónustunnar og öðrum sem láta sig málið varða.

Málþingið fer fram á Hótel Hilton Reykjavík Nordica og hefst kl. 09:00 með skráningu þátttakenda, áformað er að því ljúki kl. 16:15. Á málþinginu verða einnig nokkur fyrirtæki með kynningu á starfsemi sinni.

Þátttökugjald er 8.000 krónur en innifalið í því er hádegisverður og síðdegiskaffi.

Upplýsingar um dagskrá og skráningu má finna á vef sambandsins.

 

Úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

large uppbyggingarsjodur 2017Í dag var úthlutað 58,5 milljónum króna úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til 80 verkefna sem efla munu atvinnuþróun og menningu í landshlutanum. Þetta er þriðja úthlutun sjóðsins sem hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni í samræmi við sóknaráætlun landshlutans.

Alls bárust 115 umsóknir sem eru heldur færri en í fyrra. Áætlaður heildarkostnaður verkefna er 528 m.kr. en sótt var um styrki fyrir 131 m.kr, þar af 83 m.kr. til menningarmála og 48 m.kr. til atvinnuþróunar.

Til úthlutunar að þessu sinni voru 58,5 m.kr. og veittir voru 80 styrkir: 54 til menningarmála upp á 33,5 m.kr. og 26 styrkir til atvinnuþróunar upp á alls 25 m.kr. Áætlaður heildarkostnaður verkefna sem hlutu styrk eru 349 m.kr. Jöfn kynjahlutföll voru á milli styrkþega þar sem 40 konur og 40 karlar hlutu styrki.

Eiríkur Hilmarsson, formaður úthlutunarnefndar, sagði við úthlutunina að umsóknirnar bæru þess merki að mikil gróska væri í menningarmálum í landshlutanum og gott hefði verið að geta styrkt verkefnin betur. „Þá eru mörg áhugaverð sprotafyrirtæki að fá styrki og vonandi taka þessir nýju sprotar góðan vaxtarkipp sem fyrst,“ sagði hann ennfremur.

Það voru mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, og Signý Ormarsdóttir verkefnastjóri hjá Austurbrú, sem afhentu styrkina. Hæstu styrkina hlutu þrjú verkefni: Fyrirtækið Havarí sem getið hefur sér gott orð fyrir framleiðslu á „Sveitasnakki“. Styrkinn fá þau til áframhaldandi vöruþróunar og markaðssetningar. Þá fékk Orri Smárason, sálfræðingur, styrk fyrir verkefni sem ber heitið „Lifðu betur“. Verkefnið snýst um þróun leiða til að hjálpa fólki að nýta sér svonefnda ACT Therapy (sáttar- og atferlismeðferð) sem gefið hefur góða raun við lausn á geðrænum vanda og vanlíðan. LungA – listahátíð ungs fólks á Austurlandi hlaut styrk en þessi alþjóðlega listahátíð er sívaxandi og henni fylgir orðspor sem nær langt út fyrir landsteinana. Þessi verkefni fengu 3 m.kr. hvert.

Meðal annarra sem fengu styrki voru Skaftfell – Myndlistarmiðstöð Austurlands sem hlaut 4,8 m.kr. fyrir þrjú verkefni, Félag áhugafólks um fornleifar fékk styrk til áframhaldandi fornleifarannsókna á Stöðvarfirði (1,4 m.kr), Drif ehf. fékk styrk fyrir verkefnið „Náttúrulaugar á Vestdalseyri, Seyðisfirði“ (1,3 m.kr.), Stafkrókur - Ritsmiðja Austurlands fékk styrk fyrir verkefnið Skáldatíma – ritlistarnámskeið fyrir 10-16 ára (1,2 m.kr.) og Móðir Jörð ehf. fékk styrk fyrir verkefnið „Austfirska matborðið“ (1,2 m.kr.)

Sjá heildarlista yfir styrkþega Uppbyggingarsjóðs Austurlands árið 2017.

Athöfnin fór fram í Sláturhúsinu, menningarsetri á Egilsstöðum. Ávörp fluttu mennta- og menningarmálaráðherra Kristján Þór Júlíusson, Anna Alexandersdóttir, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, Sigrún Blöndal, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og Eiríkur Hilmarsson, formaður úthlutunarnefndar. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, stýrði athöfninni.

 

Auglýst eftir umsóknum í Uppbyggingarsjóð Austurlands

SL austurland-01Uppbyggingarsjóður Austurlands auglýsir eftir umsóknum í sjóðinn og nú fyrir árið 2017. Í fyrsta skipti verður mögulegt að sækja um rafrænt sem mun vonandi auðvelda og einfalda umsóknarferlið til muna.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja verkefni til menningar- og listuppbyggingar, stofn- og rekstrarstyrki til menningar og nýsköpunar- og atvinnuþróunarverkefni sem falla að Sóknaráætlun Austurlands.

Áhugaverð og góð verkefni hafa hlotið styrki úr sjóðnum hingað til og mörg þessara verkefna hafa fengið annað fjármagn eftir að hafa fengið styrk úr Uppbyggingarsjóði sem er oft mikilvægt til þess að verkefnið komist vel af stað. Sjóðurinn er því í mörgum tilfellum fyrsta skrefið við fjármögnun verkefna.

Umsóknarfrestur er til kl. 16.00 þann 15. desember 2016 og gert er ráð fyrir því að úthluta í lok janúar 2017. Þetta verður í fyrsta skipti sem sjóðurinn er með rafrænt umsóknareyðublað sem mun að vonum auðvelda umsækjendum umsóknarferlið sem og þeim sem meta umsóknir þ.e fagráðum og úthlutunarnefnd. Þá mun slíkt fyrirkomulag einnig gera ýmsa umsýslu auðveldari viðfangs og því um ótvírætt framfaraskref að ræða.

Mikilvægt er að Austfirðingar nýti sé ráðgjöf Austurbrúar sem heldur utan um sjóðinn og skoði möguleika á því að fá styrk fyrir sitt verkefni hjá Uppbyggingarsjóðnum. Vakin er athygli á því að Austurbrú mun standa fyrir vinnustofum í byrjun desember þar sem umsækjendur geta fengið aðstoð við gerð umsókna. Upplýsingar um vinnustofurnar og skráningu á þær má finna á vef Austurbrúar.

Áherslur Sóknaráætlunar að leiðarljósi

Þetta er í þriðja sinn sem veitt er úr Uppbyggingarsjóðnum eftir að gengið var frá samningi um sóknaráætlun 10. febrúar 2015 milli SSA og ríkisins. Áherslur við úthlutun úr sjóðnum munu byggja líkt og áður á áherslum Sóknaráætlunar Austurlands 2015 til 2019 og skv. samningi um Sóknaráætlun.

Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður og sem fyrr mun sjóðurinn að jafnaði ekki styrkja meira en 50% af heildarkostnaði verkefna og líkt áður mun sjóðurinn taka mið af trúverðugleika umsóknar, vaxtarmöguleika verkefnisins, mögulegrar atvinnuuppbyggingar, hvort verkefnið stuðli að vexti mannauðs á Austurlandi, að verkefnið stuðli að framkvæmd sóknaráætlunar og ýti undir samstarf innan Austurlands.

Upplýsingar um sjóðinn, vinnustofur, úthlutunarreglur og Sóknaráætlun Austurlands 2015 til 2019 og fleira má finna á heimasíðu Austurbrúar. Þá veitir Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs Austurlands, frekari upplýsingar í síma 860 2983 // signy (hjá) austurbru.is

 
Síða 2 af 11
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is