• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Úthlutun styrkja úr vaxtarsamningi

large vaxaRitsmiðja Austurlands, Sjóferðir Austurlands og jarðfræðitengd steinasýning eru meðal þeirra verkefna sem hlutu styrk frá Vaxtarsamningi Austurlands að þessu sinni. Átta verkefni voru styrkt en þetta er önnur úthlutun Vaxtarsamningsins á þessu ári.

Samtals var úthlutað 9.500.000 krónum en alls bárust tuttugu umsóknir að upphæð 39.975.000 króna. Vaxtarsamningur Austurlands er samningur milli Austurbrúar ses. og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Stefna hans er að styðja við uppbyggingu í anda náttúru og sjálfbærni og er honum ætlað að styðja við þau verkefni sem falla undir markmið hans. Meginhugmyndin að baki Vaxtarsamningsins er að ýta undir samstarf í svokölluðum klösum þar sem leitast er við að efla samvinnu fyrirtækja og stofnana á ákveðnum sviðum sem á einhvern hátt geta unnið saman og nýtt styrkleika hvers annars. Vaxtarsamningurinn er í umsjón Austurbrúar ses. sem hefur það meginmarkmið að efla Austurland sem eftirsóttan valkost til búsetu og fjárfestinga.

Stjórn samningsins fundaði 20. október sl. og ákveðið var að styrkja eftirfarandi verkefni:

• Ritsmiðja Austurlands, Gunnar Gunnarsson og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, 1.000.000,-
• Afurðamiðstöð viðarafurða, Jóhann F. Þórhallsson, 1.200.000,-
• Grafít ehf., Alfa Freysdóttir, 300.000,-
• Jarðfræðitengd steinasýning í hjarta Breiðdalsvíkur, Christa Maria Feucht, 800.000,-
• LungA skólinn, Aðalheiður Borgþórsdóttir, 2.000.000,-
• Starfsfolk.is, Guðmundur R. Gíslason og Marías Ben. Kristjánsson, 2.000.000,-
• Austurvarp, Gunnar Gunnarsson, 1.000.000,-
• Sjóferðir Austurlands, Elís Pétur Elísson, 1.200.000,-

 

Tíu ára blómlegt samstarf jaðarsvæða

large hugo-hildeFimmtudaginn 23. október verður ráðstefna í Norræna húsinu í Reykjavík í tilefni af tíu ára afmæli menningarsamstarfs jaðarsvæðanna Austurlands og Vesterålen í Noregi en það hefur getið af sér fjölda menningarviðburða og verkefna sem eflt hafa menningarlíf svæðanna til muna.

Á ráðstefnunni verður rakið upphaf, áherslur og afrakstur samstarfsins, sem hófst formlega fyrir tíu árum, og rætt hvort það geti nýst sem fyrirmynd fyrir aðra. Í heilan áratug hafa Austurland og Vesterålen staðið fyrir gagnkvæmum skiptum á myndlistar- og tónlistarmönnum, matreiðslu-meisturum og unglingahópum, námsferðir hafa verið farnar og ráðstefnur haldnar með fulltrúum atvinnulífs, menningarlífs og stjórnmála. Allt hefur þetta skilað sér í mun öflugra menningarlífi jaðarsvæðanna beggja.

Á ráðstefnunni verður leitast við að horfa á samstarfið og framtíð þess út frá norrænum áherslum, sjónarhorni listamannsins, stjórnsýslu og ekki síst nútíma menningarpólítík. Dagskrá hennar er fjölbreytt líkt og samstarfið sjálft: Nokkur erindi verða flutt m.a. mun Katrín Jakobsdóttir, bókmenntafræðingur og þingmaður, fjalla um mikilvægi norræns menningarsamstarfs, Elfa Hlín Pétursdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, kynnir rannsókn á félags- og menningarlegu virði framlags brottflutts ungs fólks á heimaslóðum þess, Signý Ormarsdóttir, fulltrúi menningar hjá Austurbrú, og Erik M. Bugge, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Vesterålen, munu fjalla um árangur og áherslur samstarfsins og Garðar Eðvaldsson, tónlistarmaður, segir frá þýðingu samstarfsins fyrir unga listamenn. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, munu ávarpa ráðstefnugesti.

Boðið verður upp á fleiri viðburði í tilefni tíu ára afmælis samstarfsins, m.a. tónleika þar sem ungir listamenn sem tekið hafa þátt í samstarfinu flytja frumsamin verk í bland við eldri, sjónlistasýningu, markaðstorg og írskt tónleikakvöld.

 

Áfangastaðurinn Austurland tekur á sig mynd

large fbÞriggja ára sameiginlegri vinnu ferðaþjónustuaðila, sveitarfélaga og samfélagsins við að skilgreina Austurland sem áfangastað var ýtt úr vör í gær með dagsfundi á Hótel Hildibrand í Neskaupstað. Vinnuna leiðir sérfræðingur í svæðis- og áfangastaðahönnun, í samvinnu við Austurbrú og Ferðamálasamtök Austurlands. Þetta er í fyrsta sinn hér á landi sem slík áfangahönnun nær yfir heilan landshluta.

Fundurinn var vel sóttur og komu þátttakendur víða að. Markmiðið er að Austurland standi upp úr sem áfangastaður fyrir ferðamenn og ákjósanlegur staður til búsetu. Aðstandendur verkefnisins vona að með sameiginlegri stefnu í mótun svæðisins, samræmdum aðferðum og leiðbeiningum verði því markmiði náð, en hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu telja að slíkan grunn hafi skort hingað til. Ferðamálasamtök Austurlands áttu frumkvæði að verkefninu og var leitað eftir þátttöku sem flestra; sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings.

Eftir því sem næst verður komist, er þetta í fyrsta sinn hér á landi sem samstarf næst í heilum landshluta um slíka áfangastaðahönnun. Daniel Byström, sem ráðinn hefur verið til að leiða verkefnið í samvinnu við Austurbrú, er iðnhönnuður og einn eiganda hönnunarfyrirtækisins Design Nation, sem hefur sérhæft sig í svæðis- og áfangastaðahönnun. Hann hefur m.a. unnið að svipuðum verkefnum á jaðarsvæðum í Svíþjóð og Noregi auk þess sem hann tók þátt í Evrópuverkefninu „Creative Communities“ ásamt aðilum á Austurlandi og kann því bæði vel til verka og þekkir til svæðisins.

Þessi vinna er í samræmi við áherslur sveitarfélaga á Austurlandi um að Egilsstaðaflugvöllur verði ný fluggátt inn í landið og alþjóðleg samgöngumiðstöð. Á nýafstöðnum aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi kom fram ríkur vilji til að taka þátt í nauðsynlegri stefnumörkun sem þarf að eiga sér stað í íslenskri ferðaþjónustu. Bent var á að fjölgun ferðamanna og álag á ferðamannastaði á sunnanverðu landinu, sem og á Keflavíkurflugvöll, hefði náð þolmörkum og því brýnt að leita lausna til framtíðar. Fundurinn benti á Egilsstaðaflugvöll sem augljósa aðra fluggátt inn í landið og rökréttan hluta af þeirri heildarlausn sem nauðsynleg er í málefnum ferðaþjónustu á Íslandi.

 

Sigrún Blöndal nýr formaður SSA

large s-blondalNý stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi var kjörin á aðalfundi um síðustu helgi. Hana skipa Gunnar Jónsson, Sigrún Blöndal, Gauti Jóhannesson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Hákon Hansson, Jón Björn Hákonarson og Stefán Grímur Rafnsson. Sigrún var kjörin nýr formaður stjórnar SSA á fyrsta fundi stjórnar og tekur hún við af Valdimari O. Hermannssyni. Sigrún hefur verið bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði frá 2010 og er nú forseti bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði . Hún hefur áður setið í stjórn SSA og stjórn Austurbrúar auk þess að sitja í starfshópum og nefndum á vegum Fljótsdalshéraðs, SSA og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 
Síða 11 af 13
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is