• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Ályktanir og áherslur SSA

hpmynd50. aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fór fram í Herðubreið á Seyðisfirði dagana 7. - 8. október sl. Sveitarstjórnarmenn þeirra átta sveitarfélaga sem mynda landshlutasamtökin samþykktu á fundinu sameiginlegar ályktanir landshlutans. Þá voru afhent Menningarverðlaun SSA 2015 og heiðursgestir úr hópi sveitarstjórnarmanna heiðraðir.

Samþykkt ályktana er megin verkefni aðalfundarins en þær móta stefnu landshlutans á öllum sviðum. Fjórar starfsnefndir, allsherjar- og samstarfsnefnd, byggða- og atvinnumálanefnd, mennta- og menningarmálanefnd og umhverfis- og samgöngumálanefnd fóru yfir tillögur stjórnar og annarra fulltrúa um ályktanir, unnu þær áfram og lögðu fram til atkvæðagreiðslu. Stjórn SSA er svo falið að fylgja eftir ályktunum aðalfundarins. Sú nýbreytni var á aðalfundinum í ár að skilgreind voru sex áhersluatriði sem tekin verða sérstaklega til umfjöllunar í viðræðum við fjárveitingavaldið og stofnanir ríkisins á komandi vetri: Þær eru:

• Áframhaldandi uppbygging og nýting Egilsstaðarflugvallar m.a. fyrir millilandaflug.
• Áframhaldandi uppbygging og styrking Umdæmissjúkrahúss Austurlands í Fjarðabyggð, heilsugæslunnar og annarra sjúkrastofnanna í landshlutanum.
• Sameiginlegar og öflugar almenningssamgöngur í landshlutanum sem styrktar verði til framtíðar. Þar með talið innanlandsflug.
• Háhraðatengingar um allt Austurland með aukinni aðkomu ríkisvaldsins.
• Efling fjarnáms í samstarfi við framhaldsskólana í landshlutanum og uppbygging háskólanáms og rannsóknarstarfs án tafar.
• Lokið verði við án tafar að leggja bundið slitlag á þá hluta vegakerfis landshlutans þar sem enn eru malarvegir og snúa að tengingu byggðarlaga og er Borgarfjarðarvegur þar í forgrunni nú þegar það liggur fyrir að Berufjarðarbotn mun klárast sem fyrst.

Fjölbreytt dagskrá var á aðalfundinum. Boðið var upp á fjórar málstofur þar sem fjallað var um stjórnsýslulega stöðu landshlutasamtaka, framtíðarfyrirkomulag almenningssamganga á Austurlandi, svæðisskipulag og hönnun áfangastaðarins Austurlands og uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi. Hátíðarávarp var í höndum Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis ávarpaði fundinn fyrir hönd þingmannahóps kjördæmisins. Þá leit Smári Geirsson, höfundur bókarinnar „Samstarf á Austurlandi“ og fyrrum formaður stjórnar SSA yfir farinn veg á meðan Sigrún Blöndal, formaður stjórnar SSA horfði til framtíðar. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga greindi frá verkefnum og áherslum sambandsins.

img 9500Menningarverðlaun SSA 2016 féllu í skaut Smára Geirssyni fyrir framlags hans til söguritunar á Austurlandi en meðal þeirra bóka sem hann hefur ritað á undanförnum árum eru Norðfjarðarsaga II, Samstarf á Austurlandi, saga Fjórðungsþings Austfirðinga 1943-1964 og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 1966-2006, Sparisjóður í 70 ár, saga Sparisjóðs Norðfjarðar, Síldarvinnslan hf., svipmyndir úr hálfrar aldar sögu 1957-2007 og Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 en sú bók var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlauna. Smári vinnur nú að ritun sögu Fáskrúðsfjarðar.


img 9492Þá voru þau Jónas Hallgrímsson og Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi sveitarstjórnarmenn og stjórnarmenn hjá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, heiðruð fyrir áralangt framlag sitt og starf í þágu landshlutans.

Starfssvæði SSA nær frá Vopnafirði að Djúpavogi og eiga átta sveitarfélög aðild að sambandinu: Djúpavogshreppur, Breiðdalshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjörður.

SSA er samstarfsvettvangur sveitarfélaga á Austurlandi, vinnur að hagsmunum þeirra og er ætlað að starfa í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Á liðnum árum hefur fjölgað þeim verkefnum sem landshlutasamtök sveitarfélaga sinna m.a. vegna samninga við ríkið. Viðbúið er að sú þróun haldi áfram.

Ályktanir SSA 2016

 

 

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi

50. aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fer fram í Herðubreið, Seyðisfirði dagana 7.- 8. október nk. Sveitarstjórnarmenn þeirra átta sveitarfélaga sem mynda landshlutasamtökin munu þar móta sameiginlegar áherslur landshlutans auk þess að ræða þau tækifæri og áskoranir sem sveitarfélögin standa frammi fyrir.

Fjölbreytt dagskrá verður á aðalfundinum en samþykktir ályktana er vitaskuld megin verkefni aðalfundar þar sem þær móta stefnu landshlutans á öllum sviðum. Á dagskránni verða fjórar málstofur sem fjalla um stjórnsýslulega stöðu landshlutasamtaka, framtíðarfyrirkomulag almenningssamganga á Austurlandi, svæðisskipulag og hönnun áfangastaðarins Austurlands og uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi. Hefð er fyrir því að afhenda Menningarverðlaun SSA í hátíðarkvöldverði auk þess sem sveitarstjórnarfólk af svæðinu er heiðrað.

Hátíðarávarp verður í höndum Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra auk þess sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis mun ávarpa fundinn. Þá flytur Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga erindi um starfsemi sambandsins og Smári Geirsson og Sigrún Blöndal velta fyrir sér sögu SSA sem fagnar 50 ára afmæli sínu 8. október nk.

Stofnfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi var haldinn í Egilsbúð dagana 8. – 9. október 1968. Þar var samþykkt að stofna til samtaka austfirskra sveitarfélaga en alls sóttu fundinn 28 fulltrúar frá 15 sveitarfélögum. Þá voru einnig samþykkt lög fyrir SSA þar sem fram kemur að markmið sambandsins skuli vera að vinna að hagsmunum sveitarfélaganna, einkum í atvinnu-, efnahags-, mennta-, skipulags-, samgöngu- og félagsmálum. Í dag eiga öll átta sveitarfélögin á starfssvæði SSA, frá Djúpavogi í suðri til Vopnafjarðar í norðri, aðild að landshlutasamtökunum. Verkefnum SSA hefur fjölgað á undanförnum árum, ekki síst með tilkomu samnings um sóknaráætlun.

Dagskrá fundarins.

 

Verkefnisstjóri svæðisskipulags Austurlands ráðinn

Ljósmynd 1Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) hefur ráðið Skarphéðinn Smára Þórhallsson landfræðing í starf verkefnisstjóra svæðisskipulags Austurlands. Skarphéðinn hefur störf 1. október nk.

Vinna við svæðisskipulag Austurlands er eitt af áhersluverkefnum landshlutans í tengslum við samning um sóknaráætlun. Markmiðið með verkefninu er að vinna skipulagsáætlun sem tekur til allra sveitarfélaga á Austurlandi sem landfræðilegrar, hagrænnar og félagslegrar heild. Í svæðisskipulagi er sett fram stefna viðkomandi sveitarfélaga um sameiginlega hagsmuni, s.s. byggðaþróun, samgöngur, náttúru, menningu, auðlindir og þjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Einnig á í svæðisskipulagi að útfæra landsskipulagsstefnu á viðkomandi svæði. Vinna við svæðisskipulag verður nátengd vinnu við hönnun áfangastaðarins Austurlands en markmið þess er að þróa Austurland sem búsetukost fyrir fólk, fjölskyldur og fyrirtæki. Aðferðafræði hönnunar er lögð til grundavallar í vinnunni sem byggir á rannsóknarvinnu og samtali við íbúa og notendur (e. destination design). Verkefnið hófst 2014 og fellur vel að áherslum svæðisskipulags.

Þegar hefur verið skipuð svæðisskipulagsnefnd í samræmi við leiðbeiningar Skipulagsstofnunar og verður fyrsti fundur nefndarinn 20. október nk. Þá hefur verið gengið frá ráðningu Skarphéðins Smára Þórhallssonar í starf verkefnisstjóra svæðisskipulags Austurlands. Hann mun hefja störf 1. október nk.

Skarphéðinn Smári útskrifaðist sem landfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2002 en hann lagði áherslu á skipulagsmál í náminu. Samfara námi vann hann við að útbúa gagnagrunna vegna Landgræðsluskóga hjá Skógræktarfélagi Íslands. Árið 2005 tók Skarphéðinn Smári við starfi héraðsfulltrúa hjá Fljótsdalshéraði þar sem hann fór með málefni dreifbýlisins og hálendis. Hann tók svo við umhverfismálum sveitarfélagins árið 2008 þar sem hann starfaði fram til ársins 2010 þegar hann hóf störf hjá Mannviti, fyrst sem landfræðingur og síðar meir sem skrifstofustjóri. Í lok árs 2015 hóf Skarphéðinn Smári eigin rekstur undir merkjum Logg – landfræði & ráðgjöf. Hann hefur víðtæka reynslu að vinnu við skipulagsmál.

 

Byggðaráðstefna á Breiðdalsvík

Byggðastofnun í samstarfi við Austurbrú, Breiðdalshrepp, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samband sveitarfélaga á Austurlandi stendur að ráðstefnu undir yfirskriftinni "Sókn landsbyggða: Kemur unga fólkið? Hvar liggja tækifærin?" dagana 14. - 15. september nk. á Breiðdalsvík. Ráðstefnunni er ætlað að kynna nýjar rannsóknir í byggðamálum og reynslu af hagnýtu starfi og vera á þeim grunni vettvangur fyrir umræðu um stefnumótun. Ráðstefnan er haldin á Breiðdalsvík er það gert til að veita þátttakendum innsýn í lífskjör heimamanna og áskoranir og tækifæri sem þeir standa frammi fyrir.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu Byggðastofnunar.

 
Síða 3 af 11
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is