• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi

50. aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fer fram í Herðubreið, Seyðisfirði dagana 7.- 8. október nk. Sveitarstjórnarmenn þeirra átta sveitarfélaga sem mynda landshlutasamtökin munu þar móta sameiginlegar áherslur landshlutans auk þess að ræða þau tækifæri og áskoranir sem sveitarfélögin standa frammi fyrir.

Fjölbreytt dagskrá verður á aðalfundinum en samþykktir ályktana er vitaskuld megin verkefni aðalfundar þar sem þær móta stefnu landshlutans á öllum sviðum. Á dagskránni verða fjórar málstofur sem fjalla um stjórnsýslulega stöðu landshlutasamtaka, framtíðarfyrirkomulag almenningssamganga á Austurlandi, svæðisskipulag og hönnun áfangastaðarins Austurlands og uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi. Hefð er fyrir því að afhenda Menningarverðlaun SSA í hátíðarkvöldverði auk þess sem sveitarstjórnarfólk af svæðinu er heiðrað.

Hátíðarávarp verður í höndum Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra auk þess sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis mun ávarpa fundinn. Þá flytur Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga erindi um starfsemi sambandsins og Smári Geirsson og Sigrún Blöndal velta fyrir sér sögu SSA sem fagnar 50 ára afmæli sínu 8. október nk.

Stofnfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi var haldinn í Egilsbúð dagana 8. – 9. október 1968. Þar var samþykkt að stofna til samtaka austfirskra sveitarfélaga en alls sóttu fundinn 28 fulltrúar frá 15 sveitarfélögum. Þá voru einnig samþykkt lög fyrir SSA þar sem fram kemur að markmið sambandsins skuli vera að vinna að hagsmunum sveitarfélaganna, einkum í atvinnu-, efnahags-, mennta-, skipulags-, samgöngu- og félagsmálum. Í dag eiga öll átta sveitarfélögin á starfssvæði SSA, frá Djúpavogi í suðri til Vopnafjarðar í norðri, aðild að landshlutasamtökunum. Verkefnum SSA hefur fjölgað á undanförnum árum, ekki síst með tilkomu samnings um sóknaráætlun.

Dagskrá fundarins.

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is