• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Ályktanir og áherslur SSA

hpmynd50. aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fór fram í Herðubreið á Seyðisfirði dagana 7. - 8. október sl. Sveitarstjórnarmenn þeirra átta sveitarfélaga sem mynda landshlutasamtökin samþykktu á fundinu sameiginlegar ályktanir landshlutans. Þá voru afhent Menningarverðlaun SSA 2015 og heiðursgestir úr hópi sveitarstjórnarmanna heiðraðir.

Samþykkt ályktana er megin verkefni aðalfundarins en þær móta stefnu landshlutans á öllum sviðum. Fjórar starfsnefndir, allsherjar- og samstarfsnefnd, byggða- og atvinnumálanefnd, mennta- og menningarmálanefnd og umhverfis- og samgöngumálanefnd fóru yfir tillögur stjórnar og annarra fulltrúa um ályktanir, unnu þær áfram og lögðu fram til atkvæðagreiðslu. Stjórn SSA er svo falið að fylgja eftir ályktunum aðalfundarins. Sú nýbreytni var á aðalfundinum í ár að skilgreind voru sex áhersluatriði sem tekin verða sérstaklega til umfjöllunar í viðræðum við fjárveitingavaldið og stofnanir ríkisins á komandi vetri: Þær eru:

• Áframhaldandi uppbygging og nýting Egilsstaðarflugvallar m.a. fyrir millilandaflug.
• Áframhaldandi uppbygging og styrking Umdæmissjúkrahúss Austurlands í Fjarðabyggð, heilsugæslunnar og annarra sjúkrastofnanna í landshlutanum.
• Sameiginlegar og öflugar almenningssamgöngur í landshlutanum sem styrktar verði til framtíðar. Þar með talið innanlandsflug.
• Háhraðatengingar um allt Austurland með aukinni aðkomu ríkisvaldsins.
• Efling fjarnáms í samstarfi við framhaldsskólana í landshlutanum og uppbygging háskólanáms og rannsóknarstarfs án tafar.
• Lokið verði við án tafar að leggja bundið slitlag á þá hluta vegakerfis landshlutans þar sem enn eru malarvegir og snúa að tengingu byggðarlaga og er Borgarfjarðarvegur þar í forgrunni nú þegar það liggur fyrir að Berufjarðarbotn mun klárast sem fyrst.

Fjölbreytt dagskrá var á aðalfundinum. Boðið var upp á fjórar málstofur þar sem fjallað var um stjórnsýslulega stöðu landshlutasamtaka, framtíðarfyrirkomulag almenningssamganga á Austurlandi, svæðisskipulag og hönnun áfangastaðarins Austurlands og uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi. Hátíðarávarp var í höndum Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis ávarpaði fundinn fyrir hönd þingmannahóps kjördæmisins. Þá leit Smári Geirsson, höfundur bókarinnar „Samstarf á Austurlandi“ og fyrrum formaður stjórnar SSA yfir farinn veg á meðan Sigrún Blöndal, formaður stjórnar SSA horfði til framtíðar. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga greindi frá verkefnum og áherslum sambandsins.

img 9500Menningarverðlaun SSA 2016 féllu í skaut Smára Geirssyni fyrir framlags hans til söguritunar á Austurlandi en meðal þeirra bóka sem hann hefur ritað á undanförnum árum eru Norðfjarðarsaga II, Samstarf á Austurlandi, saga Fjórðungsþings Austfirðinga 1943-1964 og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 1966-2006, Sparisjóður í 70 ár, saga Sparisjóðs Norðfjarðar, Síldarvinnslan hf., svipmyndir úr hálfrar aldar sögu 1957-2007 og Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 en sú bók var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlauna. Smári vinnur nú að ritun sögu Fáskrúðsfjarðar.


img 9492Þá voru þau Jónas Hallgrímsson og Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi sveitarstjórnarmenn og stjórnarmenn hjá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, heiðruð fyrir áralangt framlag sitt og starf í þágu landshlutans.

Starfssvæði SSA nær frá Vopnafirði að Djúpavogi og eiga átta sveitarfélög aðild að sambandinu: Djúpavogshreppur, Breiðdalshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjörður.

SSA er samstarfsvettvangur sveitarfélaga á Austurlandi, vinnur að hagsmunum þeirra og er ætlað að starfa í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Á liðnum árum hefur fjölgað þeim verkefnum sem landshlutasamtök sveitarfélaga sinna m.a. vegna samninga við ríkið. Viðbúið er að sú þróun haldi áfram.

Ályktanir SSA 2016

 

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is