• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Auglýst eftir umsóknum í Uppbyggingarsjóð Austurlands

SL austurland-01Uppbyggingarsjóður Austurlands auglýsir eftir umsóknum í sjóðinn og nú fyrir árið 2017. Í fyrsta skipti verður mögulegt að sækja um rafrænt sem mun vonandi auðvelda og einfalda umsóknarferlið til muna.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja verkefni til menningar- og listuppbyggingar, stofn- og rekstrarstyrki til menningar og nýsköpunar- og atvinnuþróunarverkefni sem falla að Sóknaráætlun Austurlands.

Áhugaverð og góð verkefni hafa hlotið styrki úr sjóðnum hingað til og mörg þessara verkefna hafa fengið annað fjármagn eftir að hafa fengið styrk úr Uppbyggingarsjóði sem er oft mikilvægt til þess að verkefnið komist vel af stað. Sjóðurinn er því í mörgum tilfellum fyrsta skrefið við fjármögnun verkefna.

Umsóknarfrestur er til kl. 16.00 þann 15. desember 2016 og gert er ráð fyrir því að úthluta í lok janúar 2017. Þetta verður í fyrsta skipti sem sjóðurinn er með rafrænt umsóknareyðublað sem mun að vonum auðvelda umsækjendum umsóknarferlið sem og þeim sem meta umsóknir þ.e fagráðum og úthlutunarnefnd. Þá mun slíkt fyrirkomulag einnig gera ýmsa umsýslu auðveldari viðfangs og því um ótvírætt framfaraskref að ræða.

Mikilvægt er að Austfirðingar nýti sé ráðgjöf Austurbrúar sem heldur utan um sjóðinn og skoði möguleika á því að fá styrk fyrir sitt verkefni hjá Uppbyggingarsjóðnum. Vakin er athygli á því að Austurbrú mun standa fyrir vinnustofum í byrjun desember þar sem umsækjendur geta fengið aðstoð við gerð umsókna. Upplýsingar um vinnustofurnar og skráningu á þær má finna á vef Austurbrúar.

Áherslur Sóknaráætlunar að leiðarljósi

Þetta er í þriðja sinn sem veitt er úr Uppbyggingarsjóðnum eftir að gengið var frá samningi um sóknaráætlun 10. febrúar 2015 milli SSA og ríkisins. Áherslur við úthlutun úr sjóðnum munu byggja líkt og áður á áherslum Sóknaráætlunar Austurlands 2015 til 2019 og skv. samningi um Sóknaráætlun.

Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður og sem fyrr mun sjóðurinn að jafnaði ekki styrkja meira en 50% af heildarkostnaði verkefna og líkt áður mun sjóðurinn taka mið af trúverðugleika umsóknar, vaxtarmöguleika verkefnisins, mögulegrar atvinnuuppbyggingar, hvort verkefnið stuðli að vexti mannauðs á Austurlandi, að verkefnið stuðli að framkvæmd sóknaráætlunar og ýti undir samstarf innan Austurlands.

Upplýsingar um sjóðinn, vinnustofur, úthlutunarreglur og Sóknaráætlun Austurlands 2015 til 2019 og fleira má finna á heimasíðu Austurbrúar. Þá veitir Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs Austurlands, frekari upplýsingar í síma 860 2983 // signy (hjá) austurbru.is

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is