• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

large uppbyggingarsjodur 2017Í dag var úthlutað 58,5 milljónum króna úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til 80 verkefna sem efla munu atvinnuþróun og menningu í landshlutanum. Þetta er þriðja úthlutun sjóðsins sem hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni í samræmi við sóknaráætlun landshlutans.

Alls bárust 115 umsóknir sem eru heldur færri en í fyrra. Áætlaður heildarkostnaður verkefna er 528 m.kr. en sótt var um styrki fyrir 131 m.kr, þar af 83 m.kr. til menningarmála og 48 m.kr. til atvinnuþróunar.

Til úthlutunar að þessu sinni voru 58,5 m.kr. og veittir voru 80 styrkir: 54 til menningarmála upp á 33,5 m.kr. og 26 styrkir til atvinnuþróunar upp á alls 25 m.kr. Áætlaður heildarkostnaður verkefna sem hlutu styrk eru 349 m.kr. Jöfn kynjahlutföll voru á milli styrkþega þar sem 40 konur og 40 karlar hlutu styrki.

Eiríkur Hilmarsson, formaður úthlutunarnefndar, sagði við úthlutunina að umsóknirnar bæru þess merki að mikil gróska væri í menningarmálum í landshlutanum og gott hefði verið að geta styrkt verkefnin betur. „Þá eru mörg áhugaverð sprotafyrirtæki að fá styrki og vonandi taka þessir nýju sprotar góðan vaxtarkipp sem fyrst,“ sagði hann ennfremur.

Það voru mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, og Signý Ormarsdóttir verkefnastjóri hjá Austurbrú, sem afhentu styrkina. Hæstu styrkina hlutu þrjú verkefni: Fyrirtækið Havarí sem getið hefur sér gott orð fyrir framleiðslu á „Sveitasnakki“. Styrkinn fá þau til áframhaldandi vöruþróunar og markaðssetningar. Þá fékk Orri Smárason, sálfræðingur, styrk fyrir verkefni sem ber heitið „Lifðu betur“. Verkefnið snýst um þróun leiða til að hjálpa fólki að nýta sér svonefnda ACT Therapy (sáttar- og atferlismeðferð) sem gefið hefur góða raun við lausn á geðrænum vanda og vanlíðan. LungA – listahátíð ungs fólks á Austurlandi hlaut styrk en þessi alþjóðlega listahátíð er sívaxandi og henni fylgir orðspor sem nær langt út fyrir landsteinana. Þessi verkefni fengu 3 m.kr. hvert.

Meðal annarra sem fengu styrki voru Skaftfell – Myndlistarmiðstöð Austurlands sem hlaut 4,8 m.kr. fyrir þrjú verkefni, Félag áhugafólks um fornleifar fékk styrk til áframhaldandi fornleifarannsókna á Stöðvarfirði (1,4 m.kr), Drif ehf. fékk styrk fyrir verkefnið „Náttúrulaugar á Vestdalseyri, Seyðisfirði“ (1,3 m.kr.), Stafkrókur - Ritsmiðja Austurlands fékk styrk fyrir verkefnið Skáldatíma – ritlistarnámskeið fyrir 10-16 ára (1,2 m.kr.) og Móðir Jörð ehf. fékk styrk fyrir verkefnið „Austfirska matborðið“ (1,2 m.kr.)

Sjá heildarlista yfir styrkþega Uppbyggingarsjóðs Austurlands árið 2017.

Athöfnin fór fram í Sláturhúsinu, menningarsetri á Egilsstöðum. Ávörp fluttu mennta- og menningarmálaráðherra Kristján Þór Júlíusson, Anna Alexandersdóttir, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, Sigrún Blöndal, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og Eiríkur Hilmarsson, formaður úthlutunarnefndar. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, stýrði athöfninni.

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is