• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Ályktun stjórnar vegna fréttaflutnings af óbirtri samgönguáætlun

Stjórn SSA fundaði þann 21. september vegna fréttaflutnings af innihaldi óbirtrar samgönguáæltunar. 

Ákveðið var að senda eftirarandi ályktun til fjölmiðla, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, samgöngunefndar Alþingis og þingmanna kjördæmisins:

 Ályktun stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um væntanlega samgönguáætlun, samþykkt á fundi þann 21. september 2018

Í ljósi fréttaflutnings af innihaldi væntanlegrar samgönguáætlunar lýsir stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) yfir miklum vonbrigðum með hlut Austurlands og þær miklu tafir sem við blasa hvað varðar nauðsynlegar samgöngubætur í fjórðungnum. Þetta er sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að undanfarin ár hafa nýframkvæmdir og viðhald vega á Austurlandi verið í algjöru lágmarki.

Stjórn SSA krefst þess að hlutur Austurlands varðandi framkvæmdir í samgöngumálum verði réttur og tekið tillit til þeirrar forgangsröðunar samgönguframkvæmda sem samþykkt hefur verið ítrekað á vettvangi SSA. Í því samhengi má nefna Fjarðarheiðargöng, nýjan veg yfir Öxi auk fjölda brýnna viðhaldsverkefna víða í fjórðungnum sem SSA hefur ályktað um.

Stjórn SSA telur eðlilegt að ráðherra og Alþingi fari eftir þeim áherslum sem mótaðar hafa verið af hálfu landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í ljósi skorts á samráði skorar stjórnin á ráðherra að hefja nú þegar samráð við landshlutasamtökin áður en endanleg drög að samgönguáætlun verða lögð fyrir Alþingi. Verði það ekki gert er allt tal stjórnvalda um eflingu sveitarstjórnarstigsins orðin tóm.

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is