• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Samningur um sóknaráætlun Austurlands

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband sveitarfélaga á Austurlandi hafa undirritað samning um sóknaráætlun Austurlands 2015 til 2019 Alls renna um 95 milljónir króna til Austurlands. Sigrún Blöndal, formaður SSA segir samninginn hafa mikla þýðingu fyrir atvinnu, nýsköpunar- og menningartengd tækifæri á Austurlandi.

Með samningnum er verið að sameina sóknaráætlanir landshluta, vaxtarsamninga og menningarsamninga. Heildarupphæð samninganna á landinu öllu er ríflega 550 milljónir króna. Til sóknaráætlunar Austurlands renna alls tæplega kr. 95.000.000 á ári með fyrirvara um samþykki fjárlaga. Við það bætast kr. 9.836.000 sem frá sveitarfélögum á Austurlandi.

IMG 3069 minni

Sem fyrr segir er verið að sameina fjóra potta úr tveimur ráðuneytum; menningarsamningar, framlög til menningartengdrar ferðaþjónustu, vaxtarsamningar og gömlu sóknaráætlanirnar. Til viðbótar koma svo framlög sveitarfélaganna í hverjum landshluta sem mótframlag til menningarmála. Landshlutasamtökunum er falið að ráðstafa fjármagni allra þessara liða í samræmi við eigin sóknaráætlanir. Með samningnum verður til nýr Uppbyggingarsjóður. Nú er unnið að úthlutunarreglum og skipun úthlutunarnefndar og fagráða en auglýst verður eftir umsóknum um sjóðum eins fljótt og auðið er.

Sigrún Blöndal, formaður SSA, segir samninginn hafi mikla þýðingu fyrir atvinnu-, nýsköpunar- og menningartengd tækifæri á Austurlandi. Sveitarfélögin hafi ekki bolmagn til að veita slíku fé í verkefni af þessu tagi. Verkefni SSA á næstu árum verður að sækja enn meira fé til ríkisins í þau verkefni sem ekki eru nú þegar eyrnamerkt fyrirfram skilgreindum verkefnum á sviði atvinnu, nýsköpunar og menningar. „Það geta verið ýmis konar áhersluverkefni innan landshlutanna eins og t.d. gerð svæðisskipulags eða efling Egilsstaðaflugvallar. Við þurfum meira fjármagn í slík verkefni og að það verður að tryggja til lengri tíma,“ segir Sigrún.

Sigurður Ingi Jóhannesson, ráðherra atvinnu og nýsköpunar, Illugi Gunnarsson, ráðherra mennta og menningar og formenn landshlutasamtakanna undirrituðu samninginn 10. febrúar sl. Vegna veðurs komust fulltrúar Eyþings og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi ekki til undirskriftarinnar í Reykjavík og því var skrifað undir samningana 11. febrúar sl. á sameiginlegum fundi Eyþings og SSA með þingmönnum Norðausturkjördæmis í Mývatnssveit.

Samning um sóknaráætlun fyrir Austurland 2015-2019 má finna á heimasíðu SSA.

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is