• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Uppbyggingarsjóður Austurlands

sl austurland-01Uppbyggingarsjóður er samkeppnissjóður. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun landshlutans. Sjóðurinn styrkir að jafnaði ekki meira en 50% af heildarkostnaði verkefna. Auglýsa skal opinberlega, minnst einu sinni á ári, eftir umsóknum um styrki til verkefna sem samræmast sóknaráætlun landshlutans. Stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum styrktum af uppbyggingarsjóði landshlutans. Nánari upplýsingar um sjóðinn má meðal annars finna í samningi um sóknaráætlun Austurlands.

Úthlutunarreglur
Umsóknareyðublað

Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) skipar úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Austurlands sem í sitja þrír aðalmenn og einn varamaður. Nefndarmenn skulu hafa haldgóða þekkingu á málefnum landshlutans og koma af vettvangi þeirra málaflokka sem Uppbyggingarsjóðurinn tekur til. Kjörnir fulltrúar sveitarstjórna skulu ekki vera fleiri en sem nemur 40% nefndarmanna.

Starfsmenn landshlutasamtaka eða skyldra aðila geta ekki setið í úthlutunarnefnd. Fulltrúar í úthlutunarnefnd skulu skipaðir til eins árs í senn og geta einstaklingar að hámarki setið tvö ár í röð. Á ári sem enda á oddatölu ganga tveir aðalmenn úr úthlutunarnefnd en á ári sem enda á sléttri tölu ganga einn aðalmaður og varamaður úr nefndinni.
Formaður nefndarinnar er skipaður sérstaklega. Við skipan í úthlutunarnefnd skal þess gætt að kynjahlutfall sé sem jafnast, fulltrúar komi sem víðast að úr landshlutanum og séu með víðtæka þekkingu og reynslu. Úthlutunarnefnd skal skipa fyrir lok apríl ár hvert.

Úthlutunarnefnd fundar eftir þörfum. Nefndin setur sér fundarsköp og verklagsreglur um meðferð umsókna, mat á umsóknum og úthlutunarferli eftir því sem þurfa þykir en styðst að öðru leyti við úthlutunarreglur sem stjórn SSA setur vegna úthlutana úr sjóðnum. Í þeim kemur meðal annars fram hvaða upplýsingar þurfa að liggja fyrir frá umsækjendum, hvað telst styrkhæfur kostnaður og hvaða viðmið gilda við mat verkefna. Jafnframt skal koma fram fyrirkomulag við útborgun styrkja og uppgjörs verkefna. Hvert verkefni fyrir sig skal setja fram með þeim hætti að unnt sé að meta efndir, árangur og kostnað þess í samræmi við verklagsreglur við úthlutun.

Úthlutunarnefnd heldur fundargerðir og skulu þær vera aðgengilegar á heimasíðu Uppbyggingarsjóðs Austurlands. Með úthlutunarnefnd starfar verkefnisstjóri Uppbyggingarsjóðs Austurlands hjá Austurbrú ses.
Hlutverk úthlutunarnefndar er að gæta þess að farið sé að markmiðum og leiðum samnings um sóknaráætlun og sóknaráætlunar landshlutans. Úthlutunarnefnd metur hvaða umsóknir teljast tækar og felur fagráðum að fjalla um þær. Fagráðin skila tillögum um styrkhæf verkefni til úthlutunarnefndar sem velur þau verkefni sem styrkt verða á grundvelli hins faglega mats og tekur ákvörðun um styrkupphæð. Úthlutunarnefnd, ásamt stjórn SSA, tilkynnir um úthlutanir og afhendir styrki við sérstaka athöfn.

Fagráð

Stjórn SSA skipar tvö fagráð til að leggja faglegt mat á umsóknir sem berast Uppbyggingarsjóði Austurlands. Annað ráðið fjallar um menningarverkefni en hitt um atvinnu- og nýsköpunarverkefni. Fimm manns auk eins varamanns sitja í hvoru fagráði fyrir sig og eru skipaðir af stjórn SSA að höfðu samráði við fagaðila á hlutaðeigandi sviðum sem að tilnefna mögulega fulltrúa í fagráðin.

Formenn fagráða eru skipaðir sérstaklega. Fagráðin eru skipuð til eins árs í senn og einstaklingar sitja í þeim að hámarki tvö ár í röð. Á ári sem enda á oddatölu ganga tveir aðalmenn úr fagráðum. Á ári sem enda á sléttri tölu ganga tveir aðalmenn og varamaður úr fagráðum. Við skipan í fagráð skal þess gætt að kynjahlutfall sé sem jafnast og fulltrúar komið sem víðast að úr landshlutanum og séu með víðtæka þekkingu og reynslu á sínum fagsviðum. Fagráð skal skipa fyrir lok apríl ár hvert.
Fagráðin fá allar tækar umsóknir í Uppbyggingarsjóð til umfjöllunar og leggja mat á hvaða verkefni eru styrkhæf og hver þeirra falla best að markmiðum og leiðum samnings um sóknaráætlun og sóknaráætlunar landshlutans. Fagráðin setja sér verklagsreglur um meðferð umsókna og mat á umsóknum eftir því sem þurfa þykir en styðjast að öðru leyti við úthlutunarreglur sem stjórn SSA setur vegna úthlutana úr Uppbyggingarsjóði Austurlands.

Fagráðin halda fundargerðir og skulu þær vera aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. Með ráðunum starfa sérfræðingar Austurbrúar.

Um vanhæfi
Þeir sem sitja í úthlutunarnefnd eða fagráðum skulu gæta að hæfisreglum við umfjöllun og ákvarðanatöku og víkja sæti ef fyrirliggjandi aðstæður eru til þess fallnar að draga úr trú á óhlutdrægni við val á verkefnum. Ef fulltrúi í úthlutunarnefnd eða fagráði telst vanhæfur samkvæmt ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna einnar eða fleiri umsókna verður hann að segja sig frá nefndarstörfum og varamaður tekur sæti hans. Einnig skal hafa til hliðsjónar 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Heimilt er að visa umsóknum milli fagráða til að forðast vanhæfi fagráðsfulltrúa.

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is