• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Stefnt að úthlutun úr Uppbyggingarsjóði í maí

SL austurland-01Auglýst var eftir umsóknum í Uppbyggingarsjóð Austurlands í mars sl. Ríflega 140 umsóknir bárust og nú fara fagráð yfir þær. Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðsins gerir ráð fyrir að ljúka störfum í maí. Tilgangur sjóðsins er að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni og önnur verkefni á Austurlandi.

Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður sem tekur við af menningar- og vaxtarsamningum Austurlands. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun frá árinu 2013 en fram skal tekið að unnið er að nýrri sóknaráætlun landshlutans á grunni samnings sem atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband sveitarfélaga á Austurlandi undirrituðu í febrúar árið 2015 og mun gilda til 2019. Á árinu 2015 verður hins vegar stuðst við sóknaráætlun frá árinu 2013.

Í ár verður úthlutað tæpum 60 milljónum króna og við úthlutun tekur sjóðurinn mið af trúverðugleika umsóknar, vaxtarmöguleika verkefnisins, mögulegrar atvinnuuppbyggingar, hvort verkefnið stuðli að vexti mannauðs á Austurlandi og sem fyrr segir að verkefnið stuðli að framkvæmd sóknaráætlunar og ýti undir samstarf innan Austurlands. Sjóðurinn mun að jafnaði ekki styrkja meira en 50% af heildarkostnaði verkefna. Auglýst verður opinberlega, minnst einu sinni á ári, eftir umsóknum. Stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum styrktum af uppbyggingarsjóði landshlutans. Austurbrú hefur umsýslu með sjóðnum.

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is