• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

58 milljónir til 85 verkefna

Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði AusturlandsÍ gær var í fyrsta skipti úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands. Alls fengu 85 verkefni 58 milljónir króna til þess að efla atvinnuþróun og menningu í landshlutanum. 147 umsóknir bárust og var heildarupphæð verkefnanna um 796 milljónir króna. Sótt var um tæpar 226 milljónir og fengu 85 verkefni styrk. Heildarupphæð styrkja nam 58 milljónum króna.

Úthlutunarnefnd Uppbygginarsjóðs leitaðist við að styrkja frekar færri verkefni en veita frekar hærri upphæðum til þeirra. Þannig vonast hún til að styrkþegar eigi betri möguleika til að framkvæma það sem fyrirhugað er og að verkefnin geti jafnframt þróast til frekari vaxtar á næstu árum. 

Hæstu styrkina hlaut Sigurðardóttir ehf. - alls 3,6 milljónir - fyrir verkefni sem tengjast verðlaunaverkefninu Austurland – Designs From Nowhere. Óbyggðasetur Austurlands, LungA og Sköpunarmiðstöðin Stöðvarfirði fengu 3 milljónir hvert en aðrir fengu minna. Á heildarlista yfir styrkþega Uppbyggingarsjóðs Austurlands má fá nánari upplýsingar um styrkþega og verkefni þeirra.

Í upphafi árs undirrituðu atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband sveitarfélaga á Austurlandi samning um sóknaráætlun Austurlands og er Uppbyggingarsjóður Austurlands hluti hans. Hann hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun landshlutans og leysir af hólmi af menningar- og vaxtarsamninga Austurlands og fyrri samning um sóknaráætlun. Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður og því hljóta þau verkefni styrk sem uppfylla flest skilyrði skv. úthlutunarreglum, auk þess sem vandaðar umsóknir og viðskiptaáætlanir fyrir stærri verkefni töldust afar mikilvægar við mat á umsóknum.

Ljósmynd: Andrés Skúlason.

 

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is