• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Ályktanir aðalfundar SSA 2015

Hópmynd SSA 2015 minniAðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fór fram á Hótel Framtíð, Djúpavogi dagana 2-. 3. október sl. Sveitarstjórnarmenn þeirra átta sveitarfélaga sem mynda landshlutasamtökin samþykktu á fundinu sameiginlegar ályktanir landshlutans. Þá voru afhent Menningarverðlaun SSA 2015 og heiðursgestur úr hópi sveitarstjórnarmanna heiðraður.

Samþykkt ályktana er megin verkefni aðalfundarins en þær móta stefnu landshlutans á öllum sviðum. Fjórar starfsnefndir, allsherjar- og samstarfsnefnd, byggða- og atvinnumálanefnd, mennta- og menningarmálanefnd og umhverfis- og samgöngumálanefnd fóru yfir tillögur stjórnar og annarra fulltrúa um ályktanir, unnu þær áfram og lögðu fram til atkvæðagreiðslu. Stjórn SSA er svo falið að fylgja eftir ályktunum aðalfundarins.

Fjölbreytt dagskrá var á aðalfundinum. Boðið var upp á fimm málstofur þar sem fjallað var um þjónustu við fatlað fólk, almenningssamgöngur, svæðisskipulag, umhverfismál og ljósleiðaravæðingu. Hátíðarávarp var í höndum Ólafar Nordal innanríkisráðherra en innanríkisráðuneytið fer með málefni sveitarstjórnarstigsins. Steingrímur J. Sigfússon, 4. þingmaður Norðausturkjördæmis ávarpaði fundinn fyrir hönd þingmannahóps kjördæmisins en þeir sátu velflestir fundinn.

Menningarverðlaun SSA 2015 féllu í skaut Rúllandi snjóbolta 6/Djúpivogur og tók Alfa Freysdóttir, verkefnisstjóri á móti þeim í hátíðarkvöldverði aðalfundarins. Rúllandi snjóbolti/6, Djúpivogur er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center) í Xiamen, Kína. Sýningin var opnuð með viðhöfn í Bræðslunni á Djúpavogi 11. júlí og stóð til 22. ágúst. Þá var Þórdís Bergsdóttir, fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúi frá Seyðisfirði heiðruð fyrir áralangt framlag sitt og starf í þágu landshlutans.

Starfssvæði SSA nær frá Vopnafirði að Djúpavogi og eiga átta sveitarfélög aðild að sambandinu: Djúpavogshreppur, Breiðdalshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjörður.

SSA vinnur að hagsmunum sveitarfélaganna á Austurlandi og er ætlað að starfa í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því sem við verður komið, auk þess sem þau hafa forgöngu um samgöngu-, atvinnu- og byggðaþróunarverkefni í landshlutanum.

Menningarverðlaun minni Heiðursgestur minni Heiðursgestur b minni

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is