• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Verkefnisstjóri svæðisskipulags Austurlands ráðinn

Ljósmynd 1Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) hefur ráðið Skarphéðinn Smára Þórhallsson landfræðing í starf verkefnisstjóra svæðisskipulags Austurlands. Skarphéðinn hefur störf 1. október nk.

Vinna við svæðisskipulag Austurlands er eitt af áhersluverkefnum landshlutans í tengslum við samning um sóknaráætlun. Markmiðið með verkefninu er að vinna skipulagsáætlun sem tekur til allra sveitarfélaga á Austurlandi sem landfræðilegrar, hagrænnar og félagslegrar heild. Í svæðisskipulagi er sett fram stefna viðkomandi sveitarfélaga um sameiginlega hagsmuni, s.s. byggðaþróun, samgöngur, náttúru, menningu, auðlindir og þjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Einnig á í svæðisskipulagi að útfæra landsskipulagsstefnu á viðkomandi svæði. Vinna við svæðisskipulag verður nátengd vinnu við hönnun áfangastaðarins Austurlands en markmið þess er að þróa Austurland sem búsetukost fyrir fólk, fjölskyldur og fyrirtæki. Aðferðafræði hönnunar er lögð til grundavallar í vinnunni sem byggir á rannsóknarvinnu og samtali við íbúa og notendur (e. destination design). Verkefnið hófst 2014 og fellur vel að áherslum svæðisskipulags.

Þegar hefur verið skipuð svæðisskipulagsnefnd í samræmi við leiðbeiningar Skipulagsstofnunar og verður fyrsti fundur nefndarinn 20. október nk. Þá hefur verið gengið frá ráðningu Skarphéðins Smára Þórhallssonar í starf verkefnisstjóra svæðisskipulags Austurlands. Hann mun hefja störf 1. október nk.

Skarphéðinn Smári útskrifaðist sem landfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2002 en hann lagði áherslu á skipulagsmál í náminu. Samfara námi vann hann við að útbúa gagnagrunna vegna Landgræðsluskóga hjá Skógræktarfélagi Íslands. Árið 2005 tók Skarphéðinn Smári við starfi héraðsfulltrúa hjá Fljótsdalshéraði þar sem hann fór með málefni dreifbýlisins og hálendis. Hann tók svo við umhverfismálum sveitarfélagins árið 2008 þar sem hann starfaði fram til ársins 2010 þegar hann hóf störf hjá Mannviti, fyrst sem landfræðingur og síðar meir sem skrifstofustjóri. Í lok árs 2015 hóf Skarphéðinn Smári eigin rekstur undir merkjum Logg – landfræði & ráðgjöf. Hann hefur víðtæka reynslu að vinnu við skipulagsmál.

 
Samband Sveitarfélaga á Austurlandi - Tjarnarbraut 39 - 700 Egilsstaðir - Sími: 470-3810 - Netfang: ssa@ssa.is